FRAM sigraði lið Grindavíkur í fyrsta sinn í gær í leik í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Grindvíkingar hafa haft ágætis tak á liði Fram á undanförnum árum. Í fimm viðureignum höfðu Grindvíkingar farið með sigur af hólmi og fjórum sinnum höfðu liðin gert jafntefli. Markatalan var 19:9 Grindvíkingum í hag en Safamýrarliðinu tókst með ágætri baráttu að snúa við blaðinu á Laugardalsvellinum í gær þegar þeir lögðu lið Grindavíkur með þremur mörkum gegn einu.

Það var þó ekki knattspyrnan sem fjölmargir áhorfendur á Laugardalsvelli voru mest uppteknir af á fyrsta stundarfjórðungi leiksins og var skýringin sú að töluverður eldur virtist loga í áhorfendastúku Knattspyrnufélags Þróttar á Valbjarnarvelli. Fljótlega tóku þó leikmennirnir við aðalhlutverki kvöldsins og á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Daði Guðmundsson fyrsta mark Fram í leiknum og Daninn Ronny Petersen bætti síðan öðru marki við á 63. mínútu. Sinisa Kekic skoraði síðan eina mark Grindvíkinga í leiknum þremur mínútum fyrir leikslok en Þorbjörn Atli Sveinsson slökkti endanlega vonir Grindvíkinga aðeins mínútu síðar er hann skoraði þriðja mark Fram á 89. mínútu.

Grindvíkingar nýttu ekki færin

Það voru Grindvíkingar sem sóttu mun meira í fyrri hálfleiknum. Framliðið tók ekki mikla áhættu í sóknaraðgerðum sínum og treysti þess í stað á skyndisóknir. Á 30. mínútu fann Kristófer Sigurgeirsson félaga sinn Sigurvin Ólafsson í vítateignum en Albert Sævarsson varði skot Sigurvins. Sinisa Kekic var síðan á ferðinni á 39. mínútu eftir góða samvinnu við Scott Ramsey og skaut góðu skoti frá vítapunkti en Fjalar varði vel.

Leikmenn Fram voru mun beittari í öllum sínum aðgerðum í seinni hálfleik og sýndu vilja sem oft hefur skort hjá þeim í sumar. Grindvíkingar áttu þrátt fyrir baráttu Framara hættuleg færi. Fjalar Þorgeirsson markvörður þurfti að taka á öllu sínu til að verja aukaspyrnu frá Scott Ramsey á 50. mínútu og mínútu síðar átti Kekic skalla frá markteig sem Fjalar varði einnig. Ronny Petersen skoraði annað mark heimamanna á 63. mínútu og allt stefndi í öruggan sigur liðsins. Grindvíkingurinn Sverrir Þór Sverisson kom inn á á 70. mínútu og með fleiri sóknarmönnum jókst sóknarþungi gestanna jafnt og þétt. Á 81. mínútu fékk Sinisa Kekic kjörið marktækifæri en skot hans fór yfir markið. Skyndisóknir Framara voru hættulegar á lokakafla leiksins og Grindvíkingar björguðu tvívegis naumlega á 82. mínútu, fyrst varði Albert Sævarsson og síðan björguðu varnarmenn á marklínu. Sinisa Kekic minnkaði síðan munin á 87. mínútu en skömmu áður hafði Sverrir Þór komist í skotfæri á markteigshorni Framliðsins en ekki tekist að skora. Grindvíkingum tókst því ekki að halda sigurgöngunni áfram gegn Fram og miðað við marktækifæri liðsins hefðu þeir hæglega getað skorað fleiri mörk. Framliðið sýndi hvað þeir geta á góðum degi og þrátt fyrir að marktækifærin hefðu ekki verið eins mörg og hjá gestunum var nýtingin þeim mun betri.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar