"ÉG HEF nú verið að lýsa því að undanförnu að það séu allverulegir veikleikar í EES-samningnum og ég telji að þeir gallar eigi eftir að koma fram í meira mæli á næstu árum og það geti leitt til þess að þjóð eins og Noregur undirbúi aðildarumsókn.

"ÉG HEF nú verið að lýsa því að undanförnu að það séu allverulegir veikleikar í EES-samningnum og ég telji að þeir gallar eigi eftir að koma fram í meira mæli á næstu árum og það geti leitt til þess að þjóð eins og Noregur undirbúi aðildarumsókn." Þetta segir Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, aðspurður um þýðingu ummæla Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, sem hann lét falla í síðustu viku um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.

Stoltenberg sagði á fundi með ungliðum norska Verkamannaflokksins að hann teldi EES-samninginn úreltan og að hann útilokaði ekki að norska ríkisstjórnin mundi gera nýja atlögu að aðildarumsókn að Evrópusambandinu, ESB, fyrir næstu kosningar, en þær fara fram á næsta ári.

"Ég tel að þessi orð Stoltenbergs staðfesti þessa skoðun mína," segir Halldór. Segir hann norska forsætisráðherrann vera að tala um sömu hlutina og hann sjálfur; "og ég tel afskaplega mikilvægt að menn meti þessi mál með raunhæfum hætti".

Ber að fara yfir kosti og galla ESB-aðildar

Halldór segir að ágallar EES-samningsins, sem séu að koma betur og betur í ljós, hafi orðið til þess að sannfæra sig um að okkur Íslendingum beri að fara yfir kosti og galla hugsanlegrar aðildar að ESB. Hitt sé svo annað mál hver niðurstaðan verði. "En mér er það mjög vel ljóst að báðir þessir kostir hafa verulega vankanta í för með sér. Og það verðum við Íslendingar að meta á raunsæjan hátt á næstu árum," segir Halldór.

Með sama hætti segir hann Norðmenn munu gera það og þessi ummæli Stoltenbergs sanni það. "Það er alveg ljóst að verði niðurstaða Norðmanna sú, að þeirra hag sé betur borgið með aðild þá mun það hafa enn frekari áhrif til þess að veikja EES-samninginn," segir Halldór.

Skoðanakannanir sýna að norskur almenningur er enn mjög klofinn í afstöðunni til ESB-aðildar, og ljóst er að fylgjendur inngöngu í sambandið, þar á meðal forsætisráðherrann, eiga við ramman reip að draga innanlands. Stjórnmálamenn í Noregi eru því margir þeirrar skoðunar að ekki sé tímabært að hleypa Evrópuumræðunni upp á ný fyrir kosningarnar á næsta ári. Aðspurður um þetta segir Halldór Ásgrímsson að hann telji að stjórnmálamenn geti ekki stjórnað því hvaða mál séu tekin á dagskrá fyrir kosningar.

"En það er alveg ljóst að ef menn taka ekki þau mál á dagskrá í aðdraganda kosninga sem skipta hagsmuni viðkomandi lands mestu máli eru menn að bregðast hlutverki sínu [sem stjórnmálamenn]," segir hann. Norðmenn komist að hans áliti ekki hjá því að ræða þetta mál til hlítar. "Það verða ýmsir aðrir til að taka þetta á dagskrá."