BÁÐAR deildir júgóslavneska þingsins hafa samþykkt ný kosningalög, sem stjórnarandstaðan segir munu tryggja Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, völd í langan tíma.

BÁÐAR deildir júgóslavneska þingsins hafa samþykkt ný kosningalög, sem stjórnarandstaðan segir munu tryggja Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, völd í langan tíma. Eru lögin í samræmi við þær stjórnarskrárbreytingar, sem samþykktar voru í fyrr í þessum mánuði. Heimila þau Milosevic að bjóða sig fram aftur þegar kjörtímabili hans lýkur um mitt ár 2001 og gera honum kleift að sitja enn í tvö kjörtímabil eða átta ár. Búist er við, að forseta-, sveitarstjórnar- og alríkiskosningar verði boðaðar fljótlega en stjórnarandstaðan í landinu er þó ekki á einu máli um hvort hún eigi að taka þátt í þeim. Kannanir benda þó til, að hún gæti sigrað sameinist hún um einn frambjóðanda.

Sprungur í Concorde

TALSMAÐUR British Airways sagði í gær, að fundist hefðu sprungur í vængjum sjö hljóðfrárra Concorde-þotna og hefði ein þeirra verið tekin úr umferð af þeim sökum. Fullyrti hann, að farþegum hefði engin hætta verið búin. Sprungurnar fundust fyrir nokkrum mánuðum en nú kom í ljós, að þær höfðu víkkað í einni vélanna. Eru þær um 5 sm langar. Er nú verið að vinna að viðgerð á vélinni og er búist við, að hún fari aftur í loftið í september.

3,1% undir eftirliti

FULLORÐNIR Bandaríkjamenn, sem voru undir eftirliti hins opinbera, ýmist sem fangar eða á reynslulausn, voru fleiri á síðasta ári en nokkru sinni fyrr. Var um að ræða næstum einn af hverjum 32 fullorðnum eða rúmlega 3,1%. Hafði talan hækkað um 0,2 prósentustig frá 1988. Árið 1980 var samsvarandi tala aðeins 1,1%. Embættismenn fullyrða, að tölurnar séu ekki til marks um aukna glæpi, heldur megi skýra þær með þeim breytingum, sem gerðar hafi verið á refsilögunum. Nú sé tekið miklu harðar á ýmsum afbrotum en áður var. Í þessum efnum er ástandið verst í Georgíu, 5,8% og Idaho, 4,2%.

Bretar sakna sumarsins

BRETAR eru mjög óánægðir með sumarið sitt, enda hefur það bæði verið svalt og votviðrasamt. Í fyrradag var ekki nema 15 stiga hiti í Norfolk og í St. Andrews í Scarborough í norðanverðu Jórvíkurskíri var hann ekki nema 13 gráður. Það var þó alveg nóg fyrir strípaling, hálfþrítuga konu, sem dansaði nakin á 18. flötinni um það leyti sem Tiger Woods bjó sig undir að slá lokahöggið. Veðrið á Bretlandi og í allri norðanverðri Evrópu hefur verið mikill hvalreki fyrir ferðaskrifstofur enda er ekki að sjá, að neitt sé að rætast úr. Spáin fyrir Bretland næstu daga er skýjað og rigning og í mesta lagi, að sólin gægist fram úr rofi stöku sinnum.