Michael Stone
Michael Stone
MICHAEL Stone, norður-írski sambandssinninn sem myrti þrjá menn einn síns liðs er hann hóf árás á gesti sem viðstaddir voru útför liðsmanns Írska lýðveldishersins (IRA) í Belfast fyrir ellefu árum, var í gær sleppt úr fangelsi.

MICHAEL Stone, norður-írski sambandssinninn sem myrti þrjá menn einn síns liðs er hann hóf árás á gesti sem viðstaddir voru útför liðsmanns Írska lýðveldishersins (IRA) í Belfast fyrir ellefu árum, var í gær sleppt úr fangelsi. Stytt fangelsisvist Stones er liður í friðarsamkomulaginu á N-Írlandi sem kennt hefur verið við föstudaginn langa og á næstu dögum munu yfir 80 fangar, bæði sambands- og lýðveldissinnar, verða leystir úr haldi.

Árið 1988 henti Stone handsprengjum og hóf skothríð að fólki sem safnast hafði fyrir í Milltown kirkjugarðinum í Belfast þegar þrír IRA-menn voru lagðir þar til hinstu hvílu. Þrír menn létu lífið í árásinni og 68 særðust.

Stone sagði ekkert við fréttamenn í gær er hann hélt úr fangelsinu en Frankie Gallagher, talsmaður sambandssinna, sagði í gær að Stone, ásamt öðrum sambandssinnum sem enn eru í haldi, auk þeirra sem losnað hafa úr fangelsi, væri fylgjandi áframhaldi friðarumleitananna.

Lausn Stones og þeirra dæmdu hryðjuverkamanna sem sleppt verður úr fangelsi síðar í vikunni hefur valdið miklum úlfaþyt í breskum stjórnmálum og hafa liðsmenn íhaldsflokksins gagnrýnt ríkisstjórn Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, fyrir að hrinda þessum áfanga friðarumleitananna í framkvæmd áður en afvopnun IRA hafi verið lokið. Andrew MacKay, talsmaður stjórnarandstöðunnar í N-Írlandsmálum, sagði í gær að stjórnin hefði ekki átt að leysa Stone og aðra fanga úr haldi uns sönnur hafi verið færðar á afvopnun IRA. "Stjórnin hefur verið reiðubúin að hagræða tímaáætlun afvopnunar. Hún ætti að vera reiðubúin að gera hið sama hvað lausn fanga varðar," sagði MacKay.

Óhæfuverk Stones í Milltown kirkjugarðinum varð, seint á níunda áratugnum, að samnefnara fyrir grimmd og vonleysi baráttu sambands- og lýðveldissinna. Eftir verknaðinn lagði Stone á flótta en var skjótt eltur uppi af æstum múgnum og barinn til óbóta. Varð það honum til lífs að lögregla skarst í leikinn

Talin var nokkur hætta á að lausn Stones myndi verða til þess að verulegur órói skapaðist á ný á milli andstæðra fylkinga.

Eftir lausn fanganna 86 síðar í vikunni munu aðeins sextán fangar verða eftir í Maze-fangelsinu sem talið er hið rammgerðasta í Evrópu.

Belfast. AFP.