EIÐUR Smári Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik í búningi Chelsea á laugardaginn. Chelsea vann þá utandeildaliðið Kingstonian, 3:1, í hefðbundnum opnunarleik á undirbúningstímabilinu.

EIÐUR Smári Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik í búningi Chelsea á laugardaginn. Chelsea vann þá utandeildaliðið Kingstonian, 3:1, í hefðbundnum opnunarleik á undirbúningstímabilinu. Varalið Chelsea leikur heimaleiki sína á velli Kingstonian og félagið mætir þangað með aðallið sitt einu sinni á ári.

Gianluca Vialli, knattspyrnustjóri Chelsea, ákvað að jafna leikinn með því að spila með aðeins 10 leikmenn allan tímann. Gianfranco Zola lagði upp öll þrjú mörkin fyrir þá Jimmy Floyd Hasselbaink, Roberto Di Matteo og Mario Stanic. Eiður Smári átti mjög rólegan dag og fékk ekki marktækifæri í leiknum.

"Jimmy og Mario léku báðir vel í sínum fyrsta leik og Eiður er góður leikmaður, með mikinn metnað, og hefur sýnt að hann býr yfir miklum hæfileikum," sagði Graham Rix, þjálfari Chelsea, eftir leikinn.