Aðkoma á slysstað var slæm.
Aðkoma á slysstað var slæm.
KONA á sjötugsaldri var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann í Fossvogi eftir alvarlegt umferðarslys sem varð á fjórða tímanum í gær á veginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

KONA á sjötugsaldri var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann í Fossvogi eftir alvarlegt umferðarslys sem varð á fjórða tímanum í gær á veginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Fjórir voru fluttir á sjúkrahúsið á Neskaupstað en meiðsli þeirra voru ekki talin alvarleg. Bílarnir eru hins vegar taldir ónýtir.

Tildrög slyssins eru ekki að fullu kunn en að sögn lögreglunnar á Eskifirði voru þrír í hvorum bílnum og mun annar bílanna hafa keyrt aftan á hinn. Óhappið átti sér stað við bæinn Hólma sem er vestanvert við Hólmaháls eða um miðja vegu milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Að sögn lögreglumanna voru aðstæður á slysstað mjög slæmar og þurfti að blása lífi í konuna, sem flutt var til Reykjavíkur, en hún var föst undir bíl sínum. Í fyrstu var óttast að konan hefði hlotið höfuðáverka en meiðsl hennar reyndust hins vegar ekki eins alvarleg og óttast hafði verið og er hún ekki talin í lífshættu. Henni var þó haldið sofandi yfir nótt, skv. upplýsingum sem fengust á Landsspítalanum í Fossvogi.