SLÖKKVILIÐ var í gærkvöldi kallað að Baldursgötu, þar sem málningu hafði verið skvett á bifreið sem stóð við götuna. Fengu slökkviliðsmenn ærinn starfa við að hreinsa bílinn og spúla síðan sóðaskapinn af götunni.
SLÖKKVILIÐ var í gærkvöldi kallað að Baldursgötu, þar sem málningu hafði verið skvett á bifreið sem stóð við götuna. Fengu slökkviliðsmenn ærinn starfa við að hreinsa bílinn og spúla síðan sóðaskapinn af götunni. Að sögn lögreglu hafði komið til orðahnippinga með manni sem staddur var í húsi við götuna og öðrum sem staddur var utanhúss. Endaði orðasennan með því að full málningarfata kom fljúgandi út um glugga hússins og var sendingin ætluð þeim sem fyrir utan stóð. Ekki tókst þó betur til en svo að málningin skvettist á bílinn og myndaði stóran flekk á götunni. Bíllinn mun ekki vera skemmdur eftir atvikið.