BANDARÍSK kona beið bana er hún féll af vélsleða ofan í sprungu á Langjökli í gær. Konan, sem var 65 ára gömul, var í dagsferð á jöklinum ásamt 35 manna hópi sem komið hafði með skemmtiferðaskipi til landsins.

BANDARÍSK kona beið bana er hún féll af vélsleða ofan í sprungu á Langjökli í gær. Konan, sem var 65 ára gömul, var í dagsferð á jöklinum ásamt 35 manna hópi sem komið hafði með skemmtiferðaskipi til landsins. Var hópurinn á leið til baka að skála ferðaþjónustunnar Langjökuls ehf. þegar sleði konunnar fór of nærri lítilli sprungu, rúmlega einum kílómetra ofan við skálann, með þeim afleiðingum að hún og maður sem var með henni á sleðanum féllu ofan í sprunguna.

Lögreglan í Borgarnesi fékk tilkynningu um slysið upp úr klukkan 13.00 í gær og um klukkan hálftvö var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang. Var konan látin þegar að var komið. Maðurinn sem einnig féll í sprunguna slapp lítt meiddur. Þótti ekki ástæða til að flytja hann á sjúkrahús og hélt hann för áfram með hópnum.