STARFSMENN Byggðastofnunar í Reykjavík hafa enn ekki tekið ákvörðun um hvort þeir flytjast með stofnuninni til Sauðárkróks á næsta ári. Að sögn Jensínu Magnúsdóttur, formanns starfsmannafélags Byggðastofnunar, barst starfsmönnum bréf frá Kristni H.

STARFSMENN Byggðastofnunar í Reykjavík hafa enn ekki tekið ákvörðun um hvort þeir flytjast með stofnuninni til Sauðárkróks á næsta ári. Að sögn Jensínu Magnúsdóttur, formanns starfsmannafélags Byggðastofnunar, barst starfsmönnum bréf frá Kristni H. Gunnarssyni, formanni stjórnar stofnunarinnar, hinn 12. júlí þar sem þeim var boðin vinna við stofnunina á Sauðárkróki eftir flutningana. "Við eigum að svara atvinnutilboðinu fyrir 13. ágúst og satt að segja finnst okkur það heldur naumur tími," segir Jensína.

Að sögn Jensínu hefur enginn starfsmanna tekið ákvörðun um framhaldið. "Stór hluti starfsmanna er í sumarfríi og bréfið hefur ekki einu sinni borist til allra," segir Jensína. Hún segir starfsmenn treysta því að réttindi þeirra verði ekki skert og öllum verði séð fyrir vinnu, hvort sem þeir kjósa að flytja norður eða ekki, enda hafi því verið haldið fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í byrjun júlímánaðar.