Lífið á Grenimelnum er ekki alltaf dans á rósum.
Lífið á Grenimelnum er ekki alltaf dans á rósum.
SVO VIRÐIST sem það sé engin áhætta að leigja sér spennumyndina "Double Jeopardy" með þeim Ashley Judd og Tommy Lee Jones í aðalhlutverkum því hún eyðir nú sinni annarri viku í toppsæti myndabandalistans.

SVO VIRÐIST sem það sé engin áhætta að leigja sér spennumyndina "Double Jeopardy" með þeim Ashley Judd og Tommy Lee Jones í aðalhlutverkum því hún eyðir nú sinni annarri viku í toppsæti myndabandalistans.

Guð, frelsari mannkynsins, þrettándi lærisveinninn, púkinn Azrael, Jay og hinn þögli Bob eru meðal gesta á annarri hæðinni. Þar hafa persónur myndarinnar "Dogma" blásið til allsherjar gleðskaps þar sem keppt er um hver sé fyrstur að grípa í stélfjaðrirnar á englunum Loka og Bartleby áður en þeir ana út í einhverja vitleysu.

Tom Hanks er eitthvað ráðvilltur í fangelsinu á fjórðu hæðinni því hann veit ekki hvort hann getur treyst einum fanganum eður ei. Kvikmyndin "The Green Mile", eða Grenimelur eins og gárungarnir kalla hana, er hástökkvari vikunnar og eyðir sinni fyrstu viku í fjórða sæti listans. Myndin er gerð eftir bókaflokki sem rithöfundurinn Stephen King skrifaði. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann eyðir tíma sínum bak við veggi fangelsisins því honum tókst afar vel upp sem handritshöfundi myndarinnar "The Shawshank Redemption" með þeim Tim Robbins og Morgan Freeman í aðalhlutverkum.

Hin magnaða mynd "The Insider" með skylmingaþrælnum Russell Crowe og mafíósanum Al Pacino í aðalhlutverkum gerir það einnig gott á lista vikunnar. Myndin er sannsöguleg og segir frá raunum Jeffrey Wigand sem var starfsmaður tóbaksrisa í Bandaríkjunum sem var rekinn fyrir það eitt að benda yfirmönnum sínum á að það væri siðferðislega rangt að auka ávanabindandi efni í sígarettum. Þegar framleiðandi fréttaskýringaþáttarins 60 mínútur nálgaðist hann átti það eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar á líf hans.

Stórmyndin "Magnolia" er engin smásmíði enda rétt rúmir þrír tímar á lengd. Hver einasta mínúta er samt skreytt úrvalsliði leikara þar sem hver og einn á stórleik í þessu dramatíska meistarastykki.