Sverrir Sverrisson, leikmaður Fylkis, haltraði um eftir leikinn en var engu að síður með bros á vör. "Það gekk bara allt upp í þessum leik, nánast ekki hægt að orða það öðruvísi.

Sverrir Sverrisson, leikmaður Fylkis, haltraði um eftir leikinn en var engu að síður með bros á vör. "Það gekk bara allt upp í þessum leik, nánast ekki hægt að orða það öðruvísi. Að vísu vorum við heppnir að þeir skyldu ekki ná að jafna í stöðunni 1:0, þá bjargaði Kjartan okkur. En eftir að við komumst í 2:0 var þetta eiginlega engin spurning."

Þið hafið ekki orðið smeykir eftir tapleikinn gegn ÍBV og trúað þessum röddum sem sögðu að nú væri gamanið á enda?

"Nei, nei. Vissulega hafa margir gaman af að velta því fyrir sér hvort við munum hrapa niður töfluna en við vitum það sjálfir að það sem við gerum er í okkar höndum og engu skiptir hvað aðrir segja," sagði Sverrir og var á því að líta þyrfti á hlutina af raunsæi. "Við ráðum ferðinni sjálfir og stöndum og föllum með því sem við gerum."

En er ekki gott fyrir sjálfstraustið að vinna svona stóran sigur?

Sverrir var greinilega ekki strax kominn í Evrópukeppnina í huganum. "Það er nú ekki alltaf gott að vinna stórt, samanber þegar Breiðablik kom hingað í Ólafsfjörð og vann 6:2. Næsta leik á eftir töpuðu þeir 5:0 gegn okkur. Svona stórsigur getur stigið mönnum til höfuðs og ég held að aðalatriðið sé að halda sér á jörðinni," sagði Sverrir Sverrisson.

"Sjálfum okkur verstir"

"Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt," sagði Páll V. Gíslason, leikmaður Leifturs, að leik loknum. "Við erum bara sjálfum okkur verstir. Við höfum sýnt að við getum unnið hvaða lið sem er, ef allt er eðlilegt, en við getum líka tapað fyrir lélegustu liðunum. Þessi leikur minnti á leikinn gegn Breiðabliki - bamm bamm bamm og mark mark mark - og þá kemur uppgjöf í liðið," sagði Páll og víst er að leikmenn Leifturs hafa um margt að hugsa og margt að laga fyrir næsta leik.

Valur Sæmundsson skrifar