Greiðslumatið sýnir hámarksfjármögnunarmöguleika með lánum Íbúðalánasjóðs miðað við eigið fé og greiðslugetu umsækjenda. Forritið gerir ráð fyrir að eignir að viðbættum nýjum lánum s.s.

Greiðslumatið sýnir hámarksfjármögnunarmöguleika með lánum Íbúðalánasjóðs miðað við eigið fé og greiðslugetu umsækjenda. Forritið gerir ráð fyrir að eignir að viðbættum nýjum lánum s.s. lífeyrissjóðslánum eða bankalánum til fjármögnunar útborgunar séu eigið fé umsækjenda og séu 10, 30 eða 35% heildarkaupanna. Síðan eru hámarksfjármögnunarmöguleikar hjá Íbúðalánasjóði reiknaðir út miðað við eigið fé, hámarksgreiðslugetu til að greiða af íbúðalánum og vaxtabætur.

Útreikningur á greiðslugetu:

Heildartekjur

-skattar

-lífeyrissjóður og félagsgjöld

-framfærslukostnaður

-kostnaður við rekstur bifreiðar

-afborganir annarra lána

-kostnaður við rekstur fasteignar

=Ráðstöfunartekjur/hámarksgeta til að greiða af íbúðalánum

Á greiðslumatsskýrslu kemur fram hámarksgreiðslugeta umsækjenda til að greiða af íbúðalánum og eigið fé umsækjenda. Þegar umsóknin kemur til Íbúðalánasjóðs fylgir henni yfirlit yfir greiðslubyrði af yfirteknum og nýjum lánum í kauptilboði. Hámarksgreiðslugeta skv. greiðslumatsskýrslunni er þá borin saman við raun greiðslubyrði á kauptilboði og eigið fé í greiðslumatsskýrslu borið saman við útborgun skv. kauptilboði. Eftir atvikum getur þurft að reikna vaxtabætur m.v. raunverulegt kauptilboð aftur þegar umsókn er skilað til Íbúðalánasjóðs.

Verð eignarinnar og samsetning fjármögnunar getur svo verið önnur en gert er ráð fyrir í greiðslumati eftir því hvaða mögulega skuldasamsetningu hin keypta eign býður upp á. Ekki er gert ráð fyrir að umsækjendur endurtaki greiðslumatið ef aðrar fjármögnunarleiðir eru farnar en gengið er út frá í greiðslumati.

Tökum dæmi:

Umsækjandi sem er að kaupa sína fyrstu eign gæti t.d. fengið greiðslumat sem sýnir hámarksverð til viðmiðunar 7.000.000 kr. miðað við 2.100.000 í eigið fé og hámarksgreiðslugeta hans væri 40.000 kr. þegar allir kostnaðarliðir hafa verið dregnir frá tekjunum.

Þessi umsækjandi gæti svo keypt íbúð fyrir 8.000.000 án þess að fara í nýtt greiðslumat ef forsendur hans um eignir og greiðslugetu ganga upp miðað við nýja lánasamsetningu.

Dæmi:

Kaupverð 8.000.000

Útborgun 2.080.000

Fasteignaveðbréf 5.600.000 (70%, greiðslubyrði m.v. 25 ára lán = 33.000 á mánuði)

Bankalán 320.000 (greiðslubyrði t.d. 10.000 á mánuði)

Það er ljóst ef kauptilboð, yfirlit yfir greiðslubyrði yfirtekinna og nýrra lána í kauptilboði og greiðslumatsskýrsla er borin saman án þess að farið sé í nýtt greiðslumat að þessi kaup eru innan ramma greiðslumatsins þrátt fyrir að stungið hafi verið upp á 7.000.000 íbúðarverði m.v. upphaflegar forsendur. Útborgunin er innan marka eigin fjár hans og greiðslubyrði lánanna innan marka greiðslugetunnar.

Fyrsta greiðsla er að jafnaði talsvert hærri en síðari greiðslur, hún er á þriðja reglulega gjalddaga frá útgáfu fasteignaveðbréfsins (sé um mánaðarlega gjalddaga að ræða) og samanstendur af einnar mánaðar afborgun, vöxtum frá fyrsta vaxtadegi (a.m.k. þrír mánuðir) og vísitölu frá grunnvísitölumánuði (a.m.k. þrír mánuðir).

Gjalddagar húsbréfalána Íbúðalánasjóðs geta verið mánaðarlega eða ársfjórðungslega. Hægt er að breyta gjalddögum lánanna eftir útgáfu þeirra.