SKÚTAN Íslendingur er komin í kanadíska landhelgi og gengur sigling í átt að L'Ans aux Meadows á Nýfundnalandi mjög vel. Í gærmorgun var Íslendingur staddur um 110 sjómílur frá Belle Isle og sigldi suðvestur í átt að Nýfundnalandi.

SKÚTAN Íslendingur er komin í kanadíska landhelgi og gengur sigling í átt að L'Ans aux Meadows á Nýfundnalandi mjög vel. Í gærmorgun var Íslendingur staddur um 110 sjómílur frá Belle Isle og sigldi suðvestur í átt að Nýfundnalandi. Vindur var þá fimm til átta metrar úr suðaustri og siglingahraðinn rúmar fjórar mílur.

Að því er fram kemur í skipsdagbók á Netinu var þoka á siglingaleiðinni í fyrrakvöld og grillti í borgarísjaka öðru hvoru. Enginn þeirra var þó hættulega nærri. Þokunni létti í gærmorgun og sigldi Íslendingur þá í heiðskíru veðri í góðum félagsskap lunda sem er ótvírætt merki þess að skipið nálgast Nýfundnaland.

Íslendingur sigldi inn í 200 mílna efnahagslögsögu Kanada klukkan ellefu á laugardagskvöld. Skömmu áður en það gerðist var haft samband við strandgæslu og sjóher Kandamanna og tilkynnt um komu Íslendings. Hugheilar kveðjur voru sendar á báða bóga, segir í skipsdagbók.

Leiðangursmenn hafa haft ýmislegt fyrir stafni síðan lagt var upp frá Grænlandi á miðvikudagsmorgun.

Gunnar Marel skipstjóri reyndi t.a.m. á fimmtudag í fyrsta skipti að nota húsasnotru, fornt siglingatæki, til að mæla út stöðu skipsins. Páll Bergþórsson veðurfræðingur og sérfræðingur í sögu víkinga gaf áhöfninni tækið fyrir brottför frá Búðardal. Kom í ljós að húsasnotran reyndist ótrúlega nákvæm miðað við nútíma GPS staðsetningartæki.