EMBÆTTISTAKA forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fer fram þriðjudaginn 1. ágúst næstkomandi en forsetinn var sjálfkjörinn þar sem ekki barst annað framboð til embættisins.
EMBÆTTISTAKA forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fer fram þriðjudaginn 1. ágúst næstkomandi en forsetinn var sjálfkjörinn þar sem ekki barst annað framboð til embættisins. Þar með hefst annað kjörtímabil Ólafs Ragnars sem kosinn var forseti Íslands árið 1996. Athöfnin mun hefjast kl. 15:30 með helgistund í Dómkirkjunni en síðan verður gengið til Alþingishúss þar sem afhending kjörbréfs fer fram. Þegar forsetinn hefur veitt kjörbréfinu viðtöku mun hann koma fram á svalir þinghússins. Kirkjuathöfnin verður opin almenningi á meðan húsrúm leyfir, að því er fram kemur í tilkynningu forsætisráðuneytisins, en í þinghúsi rúmast ekki aðrir en boðsgestir. Gjallarhornum verður komið fyrir úti svo að menn geti fylgst með því sem fram fer innan dyra, bæði í kirkju og þinghúsi. Á Austurvelli mun síðan Lúðrasveit Reykjavíkur leika í tilefni embættistökunnar.