MARÍA Bernal varð aðalumræðuefnið í Mexíkó í miðri fjárhagskreppu í landinu 1995 þegar dagblöð birtu mynd af henni í örmum Raúls Salinas, bróður fyrrverandi forseta, um borð í lystisnekkju.

MARÍA Bernal varð aðalumræðuefnið í Mexíkó í miðri fjárhagskreppu í landinu 1995 þegar dagblöð birtu mynd af henni í örmum Raúls Salinas, bróður fyrrverandi forseta, um borð í lystisnekkju. Gengisfelling pesóans hafði þurrkað út milljónir af sparifé almennings og rannsakendur höfðu komist að því að Raúl Salinas hafði stungið undan sem svarar tæplega átta milljörðum króna og lagt inn á erlenda bankareikninga í stjórnartíð bróður síns.

Raúl og María urðu fljótlega aðalsöguhetjurnar í spillingarmáli sem fjallaði um kynlíf, spillingu og misnotkun valds og jók á reiði almennings í garð stjórnmálaflokks sem hafði setið að völdum í áratugi.

Endurminningar Maríu um ástarævintýri sitt með Raúl komu í verslanir í vikunni, að því er The New York Times greinir frá, einmitt þegar Mexíkanar voru að hætta að hugsa jafn mikið og áður um syndir fjölskyldu forsetans fyrrverandi.

Skuggahlið elítunnar

Raúl Salinas situr nú inni en hann var dæmdur í 50 ára fangelsi fyrir að myrða keppinaut sinn, og bróðir hans og fyrrverandi forseti, Carlos Salinas, er í útlegð á Írlandi.

Bókin heitir Raúl Salinas og ég og hefur þegar selst í 100 þúsund eintökum og höfundurinn verið í viðtölum við alla helstu fjölmiðla.

Í bókinni segir hún frá sambandi sínu við Salinas, er stóð í um tvö ár. Þau ferðuðust milli búgarða sem hann átti, og stórhýsa við sjávarsíðuna. Bernal fékk að kynnast skuggahlið ráðandi stjórnmálaelítu sem var að breytast í glæpaklíku um það leyti sem hún glataði völdum. Bernal greiddi svo Salinas náðarhöggið með því að bera vitni fyrir hönd ákæruvaldsins við réttarhöldin yfir honum.

Kostnaður skipti minnstu

"Raúl sýndi sífellt gífurleg auðæfi sín og honum þurfti ekki annað en detta í hug eitthvað nýtt og spennandi, þá varð það að veruleika," skrifar Bernal. "Hann hafði fólk sem fullnægði öllum hans kröfum. Kostnaður skipti minnstu máli." Einhverju sinni fór hann til Zimbabve þar sem hann langaði til að prófa eitthvað nýtt og fara á fílaveiðar. "Hann sagði mér að það veitti sér ómælda ánægju að drepa svona ofboðslega stórt dýr."

Bernal er spænsk, og það var á Spáni sem þau hittust fyrst. Hún flutti svo til Mexíkó og Salinas bað hennar og hún játaðist honum. Seinna sagði hann henni þó að hann langaði til að verða ríkisstjóri og pólitískur frami krefðist þess að hann kvæntist mexíkóskri konu. Bernal mætti í brúðkaup hans og nokkrum dögum síðar flutti hún inn í húsið sem eiginkonan hafði áður búið í.

Saksóknarar hafa aldrei getað gert fyllilega grein fyrir uppruna auðæfanna sem Salinas sankaði að sér í valdatíð bróður síns. Yfirvöld í Sviss reyndu að sýna fram á að hann hefði hagnast á eiturlyfjasölu, en það tókst ekki. Salinas hefur viðurkennt að hafa hagnast gífurlega á innherjaviðskiptum í tengslum við sölu á ríkisfyrirtækjum. Bernal greinir frá því að í marga mánuði hafi starfsfólk Salinas verið önnum kafið við að eyða skjölum.

"Ég varð ástfangin af lífi Raúls," sagði hún í viðtali. "Hann var mjög aðlaðandi maður, mjög fágaður. Svo breyttist allt vegna þess að maður komst að því að þetta voru tóm svik og prettir. Að lokum var ekkert nema hótanir og þvinganir."