NORSKA félagið Stabæk hefur gert Breiðabliki tilboð í sóknarmanninn Marel Jóhann Baldvinsson. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru Norðmennirnir tilbúnir að greiða 30-40 milljónir króna fyrir Marel.

NORSKA félagið Stabæk hefur gert Breiðabliki tilboð í sóknarmanninn Marel Jóhann Baldvinsson. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru Norðmennirnir tilbúnir að greiða 30-40 milljónir króna fyrir Marel.

Ólafur Garðarsson, sem er umboðsmaður Marels ásamt Norðmanninum Lars Peter Forsdal, staðfesti við Morgunblaðið í gær að viðræður væru í gangi á milli félaganna en vildi ekki staðfesta kaupverðið.

"Þetta er spennandi tilboð og ég tel að það væri góður kostur að gerast leikmaður hjá Stabæk. Mér var boðið tvisvar til félagsins síðasta haust og leist mjög vel á aðstæður og félagið, sem virðist á uppleið. Norðmennirnir vilja fá mig sem fyrst en það skýrist á næstu dögum hvort félögin komist að samkomulagi. Boltinn er hjá þeim en ég vona að þetta gangi hratt fyrir sig þar sem ég þarf tíma til að koma mér í góða æfingu eftir langa fjarveru. Annars hugsa ég fyrst og fremst um leikinn gegn ÍA, þar ætlum við okkur sigur," sagði Marel við Morgunblaðið í gærkvöld, en Breiðablik mætir ÍA á Akranesi í kvöld.

Stabæk er í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar. Landsliðsmaðurinn Pétur Marteinsson leikur með Stabæk og Helgi Sigurðsson var helsti markaskorari félagsins áður en hann var seldur til Panathinaikos í Grikklandi á síðasta ári.