FUNDUR G-8 hópsins svonefnda var mest áberandi ráðstefna sem haldin var á árinu, þar sem leiðtogar helstu og efnuðustu ríkja heims komu saman til þess að ræða helstu vandamál heimsbyggðarinnar.

FUNDUR G-8 hópsins svonefnda var mest áberandi ráðstefna sem haldin var á árinu, þar sem leiðtogar helstu og efnuðustu ríkja heims komu saman til þess að ræða helstu vandamál heimsbyggðarinnar. En þegar upp var staðið sögðu margir gagnrýnendur að eitt orð dygði til að lýsa ráðstefnunni: Vonbrigði.

"Útkoman hefur í gegnum tíðina orðið sífellt minna til gagns," sagði Jeffrey Schott, við Alþjóðahagfræðistofnunina í Washington. Fundurinn í ár, sem fór fram á japönsku eynni Okinawa, var þar engin undantekning. Líkt og undanfarið lauk þessari ráðstefnu með því að samið var langt skjal þar sem fjallað var um svo að segja öll hugsanleg máefni, allt frá efnahagsmálum til menningarlegrar sundurleitni.

Mikilvæg heit voru gefin. Leiðtogar ríkjanna átta, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans, Kanada, Rússlands og Þýskalands, hétu því að hjálpa fátækum ríkjum að minnka skuldir og bæta stöðuna í menntamálum, heilbrigðismálum og tölvutækni. Þá hvöttu leiðtogarnir Heimsviðskiptastofnunina (WTO) til að efna til annarrar viðræðulotu um afnám viðskiptahafta á þessu ári þrátt fyrir þau miklu mótmæli er brutust út þegar stofnunin hélt fund í Seattle í Bandaríkjunum í fyrra.

Engin þáttaskil

En niðurstaðan var víðfeðm og ekki var tekist á við neitt málefni í heild, engin þáttaskil urðu og lítið um fjármagn á bak við hin miklu fyrirheit. Sumir leiðtoganna vísuðu til föðurhúsanna gagnrýni þess efnis að ráðstefnan hefði ekki veitt leiðsögn um það hvernig gengið skuli til verka. Til dæmis hélt Jacques Chirac Frakklandsforseti því fram að ráðstefnan hafi engu að síður gildi. "Öruggasta leiðin til að tryggja að ekkert gerist er að tala ekki saman ... að hver sé í sínu horni," sagði hann.

Hnignandi hlutverk G-8 ráðstefnunnar kom hvað skýrast í ljós að þessu sinni þegar Bill Clinton Bandaríkjaforseti mætti ekki fyrr en degi of seint og fór aftur nokkrum klukkustundum fyrr en hinir leiðtogarnir til þess að sinna Miðausturlandaviðræðunum sem nú standa yfir í Bandaríkjunum og eru mun mikilvægari.

Óformlegri fundir

Gagnrýnendur segja að ráðstefna leiðtoga helstu iðnríkja heims hafi ekki alltaf skipað annað sætið með þessum hætti. Þegar hópurinn hafi fyrst farið að koma saman á áttunda áratugnum hafi fundir þeirra verið óformlegri og ekki einkennst eins mikið og nú af skrifræði og orðmörgum og fyrirfram tilreiddum yfirlýsingum. Schott tók þátt í Tókýó-lotu viðræðnanna um GATT, fyrirrennara WTO, 1973-79, og sagði hann leiðtogaráðstefnuna 1978 hafa skilað raunverulegum árangri fyrir alheimsviðskipti.

Ástæður hnignunarinnar eru margar. Einn vandinn er sá að eftir því sem ráðstefnan hefur orðið meira áberandi hefur skipulagningin orðið strangari og fátt sem leiðtogarnir geta tekist á um. Þá hefur málefnunum á dagskránni fjölgað. Í fyrstu kom hópurinn saman til að ræða efnahagsmál, en á Okinawa voru helstu umræðuefnin öryggismál á borð við tillögur Bandaríkjamanna um eldflaugavarnakerfi og Norður-Kóreu."Ef þjóðhöfðingjar veita ekki styrka forystu ... verður niðurstaðan eiginlega óhjákvæmlega svona langir innkaupalistar yfir aukaatriði," sagði C. Fred Bergsten, framkvæmdastjóri Alþjóðahagfræðistofnunarinnar. Þá hefur það enn frekar stuðlað að þessari þróun að Rússar eru komnir í hópinn en taka ekki fullan þátt í efnahagsmálaumræðum þótt þeir hafi mikilvægu pólitísku hlutverki að gegna.

Þá skiptir máli að heimurinn er ekki lengur eins og hann var á áttunda áratugnum. Aukin þátttaka Asíuríkja í efnahag heimsins hefur til dæmis leitt til gagnrýni á það stóra hlutverk sem Evrópuríki hafa gegnt á fundunum. Þá hefur hópurinn átt í erfiðleikum með að fylgja eftir þeim mikilvægu framfaraskrefum sem honum hefur þó tekist að ná. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur gagnrýnt hópinn fyrir að standa ekki við loforð frá því í fyrra um að létta á skuldabyrði fátækra ríkja.

G-3?

Gagnrýnendur segja að leiðtogarnir eigi að notfæra sér meira þau tækifæri sem þeim gefist til ákveðinna skoðanaskipta og samninga sem lægra settir embættismenn hafi ekki heimild til að gera. Eitt lykilatriðið á fundum í framtíðinni gæti verið að takmarka umfang fundanna svo að fundarmenn geti einbeitt sér að og náð árangri í viðræðum um mikilvægustu málefnin.

Bergstein segir að til dæmis væri auðveldara að halda G-3 fund - Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan. "Það yrði mun árangursríkara," segir hann.

Nago á Okinawa. AP.