HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur úrskurðaði í gærkvöldi konu um fertugt í sjö daga gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar í Reykjavík en krafan var lögð fram í tengslum við rannsókn á dauða manns á Leifsgötu í fyrrinótt.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur úrskurðaði í gærkvöldi konu um fertugt í sjö daga gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar í Reykjavík en krafan var lögð fram í tengslum við rannsókn á dauða manns á Leifsgötu í fyrrinótt. Héraðsdómur tók einnig til greina gæsluvarðhaldskröfu á hendur liðlega sextugum manni og var hann dæmdur í fimm daga gæsluvarðhald, eða til 29. júlí næstkomandi. Bæði hafa áður komið við sögu afbrotamála.

Fólkið var handtekið í fyrrinótt í tengslum við dauða manns í húsi við Leifsgötu 10. Hafði karlmaður á fimmtugsaldri fundist látinn í svefnherberginu og þóttu verksummerki benda til að dauða hans hefði ekki borið að með eðlilegum hætti. Engir áverkar fundust þó á líkinu, að sögn lögreglu, og því er ekki hægt að segja til um hana fyrr en niðurstaða krufningar liggur fyrir í dag.

Skv. upplýsingum lögreglunnar var maðurinn sem lést gestkomandi í húsinu en karlmaðurinn sem nú hefur verið dæmdur í gæsluvarðhald er hins vegar húsráðandi á Leifsgötu. Mikill gleðskapur hafði verið í íbúðinni fyrr um kvöldið en húsið var mannlaust þegar maðurinn fannst. Lögreglan handtók hins vegar karlmanninn og konuna skömmu síðar við húsið.

Lögreglu var gert viðvart klukkan 1:08 í fyrrinótt en þegar hún kom í húsið var maðurinn látinn. Aðeins rúmt ár er síðan annað morðmál kom upp á Leifsgötu, en það var aðfaranótt 14. júlí er maður var myrtur í húsi við Leifsgötu 28.