Samkvæmt 14. og 20. grein útvarpslaga er m.a. óleyfilegt hér á landi að hvetja börn til að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni.
Samkvæmt 14. og 20. grein útvarpslaga er m.a. óleyfilegt hér á landi að hvetja börn til að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni.
BRESK verslunarkeðja hefur ákveðið að banna að auglýsingar á óhollum matvörum keðjunnar séu sýndar í barnatíma í sjónvarpi.

BRESK verslunarkeðja hefur ákveðið að banna að auglýsingar á óhollum matvörum keðjunnar séu sýndar í barnatíma í sjónvarpi. Einnig hefur verið ákveðið að nota ekki teiknimyndir eða fígúrur sem höfða sérstaklega til barna þegar verið er að auglýsa óholla matvöru. Komið hefur í ljós að auglýsendur leggja áherslu á að að auglýsa sem mest af slíkum vörum einmitt þegar vitað er að börn eru við skjáinn og samkvæmt rannsóknum eru 99% matvara sem auglýstar eru á þessum tíma innihaldsríkar af sykri, fitu eða salti. Talsmaður keðjunnar segir að eftir stöðugar viðvaranir frá heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi um slæmt ástand í næringarmálum barna hafi þau fundið sig tilneydd til að leggja sitt af mörkum til að snúa þessari þróun við. Hann segist vona að fleiri verslunarkeðjur feti í fótspor þeirra og einnig að settar verði strangari reglur um auglýsingar sem beinast að börnum en í Bretlandi eru fyrir reglur sem eiga að hindra að auglýsingum á óhollu fæði sé haldið að börnum.

Nauðsynlegt að skoða þessi mál hér á landi

Hérlendis er fjallað um börn og auglýsingar í 14. og 20. grein útvarpslaga. Þar segir meðal annars að óleyfilegt sé að hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni.

Í sameiginlegum stefnumarkandi reglum frá Verðlagsstofnun og umboðsmönnum neytenda á Norðurlöndunum er einnig að finna kafla um börn og auglýsingar og þar segir í 7. grein að í auglýsingum um sælgæti, svaladrykki, nasl og þess háttar vörur megi ekki gefa til kynna að þessar vörur geti komið í stað venjulegs fæðis. Þórhildur Líndal umboðsmaður barna segir fulla þörf á að skoða hvernig þessum hlutum er háttað hér á landi. "Það þyrfti að gera úttekt á því hvers konar auglýsingar eru sýndar í tengslum við barnaefni í sjónvarpi því börn eru mjög móttækileg fyrir auglýsingum." Hún segir börn og auglýsingar og þá sérstaklega sjónvarpsauglýsingar mikið í umræðunni á hinum Norðurlöndunum. "Við verðum að skoða hvar við stöndum í þessum málum. Það er alveg greinilegt að auglýsendur beina spjótum sínum í sífellt meira mæli að börnum sem markhópi." Hún segir að auglýsendur séu alltaf að leita leiða til að ná til fólks og það sé sérstaklega auðvelt að ná til barna. "Ung börn eru eðlilega áhrifagjarnari en fullorðnir og síður gagnrýnin. Sýnt hefur verið fram á að börn muna vel eftir auglýsingum sem börn á svipum aldri leika í. Þetta er mikið notað til að vekja athygli barna á ýmsum varningi." Aðspurð hvort Íslendingar eigi að taka upp sömu stefnu og gert hefur verið í Svíþjóð þar sem auglýsingar sem beinast að börnum eru bannaðar segist hún ekki vera hlynnt því. "Mér finnst það ekki vera nein lausn að banna hlutina. Við eigum frekar að velja úr og hafna því slæma og þannig að vernda börnin."

Auglýsingar geta haft áhrif á þroska barna

Samkvæmt rannsóknum sem breska verslunarkeðjan lét gera eru auglýsingar um kökur, kex og sætindi helmingur allra auglýsinga í kringum barnatímann en slíkar auglýsingar eru aðeins 13% auglýsinga á öðrum tímum í sjónvarpi. Sálfræðingurinn Dr. Aric Sigman sem rannsakað hefur áhrif auglýsinga á börn segir að sálfræðin á bak við slíkar auglýsingar sé að nota veikleika barna á mikilvægu þroskastigi. Hann segir menn hafa áhyggjur af því að hin stutta og mikla örvun sem sjónvarpsauglýsingar fyrir börn valda geti haft varanleg áhrif á þroska heilans og athyglissviðs hjá þeim. Kannanir sýna að 73% breskra barna biðja foreldra sína um að kaupa hluti sem þau hafa séð auglýsta í sjónvarpi og að 77% foreldra vilja að slíkar auglýsingar verði bannaðar.