MIKIL rigning setti svip á fjallamaraþonið á milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem haldið var á laugardaginn. Þetta var í þriðja skipti sem keppnin er haldin.

MIKIL rigning setti svip á fjallamaraþonið á milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem haldið var á laugardaginn. Þetta var í þriðja skipti sem keppnin er haldin. Vatnavextir í Þröngá, skammt norðan Þórsmerkur, gerðu það að verkum að keppnishaldarar ákváðu að breyta um leið. Í stað þess að ljúka keppni í Þórsmörk var hlaupurunum beint á Emstruleið sem liggur um Fljótshlíð. Þar lauk hlaupinu við Gilsá. Hlaupið varð af þessum sökum nokkru lengra en til stóð í fyrstu.

Þegar ákvörðun var tekin um að breyta leiðinni voru fremstu hlaupararnir komnir langleiðina að Þórsmörk. Flestir ákváðu þeir að hætta keppni enda orðnir stirðir eftir setu í björgunarsveitarbíl sem náði í þá. Röð efstu manna riðlast því nokkuð. Fyrstur í mark var Karsten Sörensen frá Þýskalandi sem hljóp á 5 klst. 11 mínútum og 14 sekúndum en allmargir útlendingar tóku þátt í fjallamaraþoninu. Fyrstur Íslendinga í mark var Örnólfur Thorlacius Árnason sem kom í mark 24 mínútum og fjórum sekúndum síðar. Bjartmar Birgisson var lengst af fremstur keppenda en hætti keppni þegar leiðinni var breytt.