Kjötvörur eru misdýrar eftir því hvaðan af skepnunni þær koma. Þannig er kílóverð hangilærisins á myndinni sennilega hærra en á frampartinum  við hlið þess.
Kjötvörur eru misdýrar eftir því hvaðan af skepnunni þær koma. Þannig er kílóverð hangilærisins á myndinni sennilega hærra en á frampartinum við hlið þess.
Fákeppni á matvælamarkaði er þyrnir í augum bænda og kjötframleiðenda. Hafa þeir áhyggjur af vaxandi veldi stórra verslunarkeðja sem þeir segja í æ ríkara mæli stjórna allri verðlagningu upp á eigin spýtur. Valgarður Lyngdal Jónsson ræddi við nokkra kjötverkendur og forsvarsmenn verslana, sem á móti benda á einokun í röðum dreifingar- fyrirtækja landbúnaðarins.

KJÖTAFURÐIR hafa hækkað í verði á undanförnum 5-6 árum, en á sama tíma hefur það verð sem bændur fá fyrir þessar afurðir farið lækkandi. Þetta kom fram í frétt Morgunblaðsins fyrir skömmu, þar sem verðþróun síðustu ára var skoðuð út frá neysluvísitölu síðasta árs. Var þar m.a. tekið dæmi af smásöluverði á lambalæri, svínalæri og nautagúllasi sem farið hefur hækkandi frá árunum 1994 og '95 til dagsins í dag. Á sama tíma hefur hins vegar meðalverð til bænda fyrir kindakjöt, svínakjöt og nautakjöt farið stiglækkandi.

Verslanakeðjurnar ráða markaðnum

Í samtölum Morgunblaðsins við forsvarsmenn kjötvinnslufyrirtækja víða um land kveður nær alls staðar við sama tóninn. Smásöluverslun í landinu er meira og minna komin í hendur örfárra aðila, sem í krafti stærðar sinnar geta náð fram þeim kjörum sem þeir vilja. Hins vegar segja kjötverkendurnir að bein hagræðing sjáist ekki nema að litlu leyti á móti þeim afsláttarkjörum sem þessir aðilar fá og afleiðingin sé því hærra vöruverð til neytenda.

"Það sér það hver maður, að með tuttugu kjötvinnslur í landinu og þrjá til fjóra stóra smásöluaðila, getur smásalan fengið þá afslætti sem henni sýnist. Það er lítið mál að sparka einni af þessum kjötvinnslum út í kuldann ef mönnum sýnist svo," sagði einn af heimildamönnum blaðsins.

Sama hljóðið var að heyra í öðrum kjötverkendum sem rætt var við en enginn þeirra hafði áhuga á að nafn sitt eða viðkomandi fyrirtækis væri bendlað við þessa umræðu. Sögðu þeir það helgast af því, að með því að gagnrýna starfsaðferðir smásalanna gætu þeir verið að vinna sínum fyrirtækjum skaða, en þau væru, eðli málsins samkvæmt, upp á smásalana komin með afkomu sína.

Gagnrýni kjötverkenda snýst sem sé um það, að frá því að innkaup fyrir verslanakeðjurnar færðust á færri hendur en áður, eru kjötverkendur knúnir til að veita mun meiri afslætti af framleiðsluvörum sínum en áður tíðkaðist og þess vegna verði þeir sjálfir að knýja á lækkanir á því verði sem þeir greiða bændum fyrir kjötið.

Hins vegar segja þeir að þessir afslættir séu ekki að skila sér sem skyldi í lækkuðu vöruverði. Segja kjötverkendurnir að þeirra á meðal ríki enn full samkeppni, en fákeppnin í smásölunni geri þá samkeppni enn erfiðari, þar sem svo margir þurfi að slást um svo fáa viðskiptavini. Tók einn svo djúpt í árinni að segja það vera óhugnanlega stöðu að búið væri að gefa tveimur aðilum megnið af þessum markaði. "Í Bretlandi eru menn að býsnast yfir því að fimm aðilar ráði helmingi markaðarins, en hér eru tveir með 80 til 85%. Auðvitað leggur enginn í að styggja fyrirtæki með slíka stöðu á markaði," sagði hann.

Meira um afslætti og tilboð en áður

Þessi mynd sem dregin er upp af matvörumarkaðnum er þó ekki alveg einhlít. Einn viðmælenda blaðsins benti t.a.m. á, að frá þeim tíma sem um ræðir, kringum 1995, hafi verslanir í síauknum mæli farið að selja matvöru á ýmiss konar tilboðum og afsláttum og nú sé svo komið að stór hluti þess kjöts sem selt er í matvöruverslunum fari á slíkum afsláttarkjörum. Viðmiðunartölur Hagstofunnar, sem Morgunblaðið fór eftir í samanburðinum á laugardag, miðist hins vegar við skráð kílóverð á hverjum tíma og gefi því ekki fullkomlega rétta mynd af því á hvaða verði fólk sé að kaupa vörurnar úti í búð. Sagði þessi viðmælandi að tekjur verslananna af álagningu sinni færu að miklu leyti í það að kosta tilboð og afslætti af þessu tagi og því væri fjarri lagi að þær sætu með allan gróðann í höndunum.

Mjólkurvörur seldar undir kostnaðarverði

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, hafði í samtali við Morgunblaðið ýmislegt að athuga við gagnrýni bænda og kjötverkenda á verslanakeðjurnar. Sagði hann að stærstur hluti landbúnaðarvara, sem eru mjólkurvörur og ostar, væri í raun seldur undir rekstrarkostnaði verslananna. Sagði hann verslanir Baugs tapa um 7-8% á þessum vörum, því álagning þeirra væri það miklu lægri en raunkostnaður verslunarinnar af vörunum.

Hvað kjötafurðirnar varðar benti Jón Ásgeir á að neyslumynstur Íslendinga hefði breyst mikið á síðustu árum. Neysla á hvítu kjöti færi sífellt vaxandi og þar væru kjúklingar sér í lagi í örum vexti, enda hefur verð á þeim farið lækkandi á síðustu árum. Ekki vildi hann meina að allt tal um sýkingar af völdum salmonellu og kamphýlóbekter hefði þar haft nein áhrif. Neysla kjúklinga hefði aukist þrátt fyrir það.

Sagðist Jón Ásgeir ekki telja að það væri á nokkurn hátt verslununum að kenna að afurðaverð til bænda hefði farið lækkandi á síðustu árum. Hann teldi það mun líklegri skýringu að afurðastöðvarnar væru að taka meira til sín en áður.

"Varðandi það að bændur séu undir ægivaldi verslunarkeðjanna," sagði Jón Ásgeir, "þá bendi ég bara á Mjólkursamsöluna, Osta- og smjörsöluna og Sölufélag garðyrkjumanna, en þessi fyrirtæki eru með 95 til 100% markaðshlutdeild og frá þeim koma um 60% allra landbúnaðarvara sem verslunarfyrirtækin kaupa. Þau setja okkur því algerlega línurnar hvað verðlag varðar í skjóli einokunar og undir vernd ofurtollanna sem hindra innflutning á landbúnaðarvörum. Afleiðingarnar eru svo þær, að á þessu ári eru íslenskir neytendur að greiða 6,2 milljarða í hærra vöruverði vegna löngu gjaldþrota landbúnaðarstefnu. Þess vegna held ég að þeir sem vilja gagnrýna fákeppni hjá smásöluverslunum séu oft á tíðum að kasta hnullungum úr glerhúsi. Fákeppnin er í því, hvar við getum fengið þessi landbúnaðaraðföng."

Ennþá hart barist á smásölumarkaði

Enda þótt aðilum á smásölumarkaði hafi fækkað sagði Jón Ásgeir að óvíða annars staðar væri slegist meira á markaði en einmitt þar. Sagði hann að þótt aðilar væru færri en áður, væru þeir jafnframt stærri og með sterkari bein og þess vegna enn meiri kraftur í slagnum, enda sjáist það best í Morgunblaðinu í hverri viku þegar verðkannanir birtast þar á neytendasíðunni. Sagði hann það því enga tilviljun, að vísitala matvöruverðs hafi farið lækkandi síðustu 6 mánuði og ennfremur sagðist hann ekki búast við hækkunum á matvörum til framtíðar, þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun.

Hvað kröfur verslanakeðja um afslætti af kjötvörum varðar sagðist Jón Ásgeir ekki hafa orðið var við mikinn barning á þeim markaði. Hins vegar reyni verslanirnar að sjálfsögðu að ná eins hagstæðu innkaupsverði og hægt er á hverjum tíma. Það sé einfaldlega krafa neytenda að þær standi sig í því. "En kjarni málsins er sá, að við erum ekki að taka meira fyrir að selja vöruna en eðlilegt getur talist, enda kemur það skýrt fram í okkar reikningum," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson að lokum.

Kjötvörur meira unnar en áður

Ekki ber af framansögðu að líta svo á, að álagning verslana ein og sér skapi þær verðhækkanir á kjötafurðum sem virðast hafa orðið á síðustu árum. Einnig má skýringanna að hluta til leita í því að kjötvörur fara nú í gegnum lengri vinnsluferil hjá kjötvinnslustöðvum og í verslunum en áður. Neytendum bjóðast nú mun meira unnar kjötvörur en í boði var fyrir 5 til 7 árum, gömlu söguðu skrokkarnir eru óðum að hverfa og fullunnar kjötvörur í neytendaumbúðum taka við. Þessi vinnsla kostar fjármuni sem leggjast á útsöluverð vörunnar í verslununum.

Samfara þessari þróun eru ákveðnir hlutar lambskrokksins, s.s. læri og hryggur, nú orðnir hlutfallslega dýrari en aðrir hlutar hans. Það dæmi sem Morgunblaðið tók miðaðist t.a.m. við lambalæri, sem frá árinu 1995 hefur hækkað í verði á meðan afurðir úr slögum eða framparti hafa lækkað. Segja viðmælendur Morgunblaðsins að meðalsmásöluverð fyrir lambsskrokkinn sé því í raun lægra en samanburður blaðsins síðasta laugardag gaf til kynna og munurinn á útsöluverði og afurðaverði til bænda ekki eins mikill og þar var gefið til kynna. Einnig segja heimildamenn Morgunblaðsins launaliði hjá kjötvinnslunum hafa hækkað og allt eru þetta hlutir sem á endanum hlaðast á smásöluverðið. Hins vegar telja margir þeirra kjötframleiðenda sem rætt var við að þróunin ætti ekki eftir að verða sú, að kjötverð haldi lengi áfram að hækka. Vinnslustöðvar fari stækkandi og verði því sífellt hagkvæmari rekstrareiningar og er það samdóma álit margra þeirra sem Morgunblaðið ræddi við, að sú hagkvæmni muni á endanum skila sér til neytenda. Ekki voru þó allir sammála þessu og einn viðmælandi sagðist engan veginn vera spenntur fyrir því að sjá þessa grein þróast í sömu átt og smásalan hefur gert. Ef svo verður horfir varla glæsilega fyrir bændum, sem verða þá komnir í svipaða stöðu og kjötvinnslurnar eru nú.