Skagfirðingar og Sunnlendingar kaupa Kveik frá Miðsitju Hrossaræktarsambönd Skagfirðinga og Sunnlendinga hafa keypt stóðhestinn Kveik frá Miðsitju sem stóð efstur fjögurra vetra stóðhesta á Landsmótinu á Vindheimamelum í sumar. Að sögn Einars E.

Skagfirðingar og Sunnlendingar kaupa Kveik frá Miðsitju Hrossaræktarsambönd Skagfirðinga og Sunnlendinga hafa keypt stóðhestinn Kveik frá Miðsitju sem stóð efstur fjögurra vetra stóðhesta á Landsmótinu á Vindheimamelum í sumar. Að sögn Einars E. Gíslasonar, formanns Hrossaræktarsambands Skagfirðinga, er umað ræða kaupleigusamning þannig að hesturinn verði greiddur að fullu á fimm árum.

Sagði Einar að við undirritun samningsins verði greiddar 2,5 milljónir króna en síðan verði seljendum hestsins greiddar 12.500 krónur af hverjum folatolli á 280 hryssum. Skilyrt er að hesturinn anni þessum fjölda á næstu fimm árum. Alls eru þetta 6 milljónir króna sem hrossaræktarsamböndin koma til með að greiða fyrir Kveik. Taldi Einar ljóst að folatollurinn undir Kveik yrði ekki undir 20 þúsundum króna með virðisaukaskatti en með því móti myndi hann borga sig upp á næstu fimm til tíu árum.

Seljendur hestins eru Jóhann Þorsteinsson, Miðsitju, Þormar Andrésson, Hvollsvelli og Jón Þórðarson, Eyvindarmúla.

Kveikur hlaut 8,06 í einkunn á landsmótinu, 7,98 fyrir byggingu og 8,14 fyrir hæfileika. Í kynbóta einkunn samkvæmt tölvuspá Búnaðarfélagsins sem gerð var í júní er hann með 124 sem þykir gott hjá ekki eldri hesti. Hann er undan Gusti 923 frá Sauðárkróki og Perlu 4119 frá Reykjum á Reykjaströnd.

Morgunblaðið/Valdimar Kristinsson

Kveikur á Landsmótinu á Vindheimamelum í sumar, Jóhann Þorsteinsson á Miðsitju situr hann.