Varnir gegn mengun hafsins Íslenzkt frumkvæði að samstarfi Norður-Atlantshafsþjóðanna Stefán Friðbjarnarson Hafið geymir þær auðlindir sem gera Ísland byggilegt.

Varnir gegn mengun hafsins Íslenzkt frumkvæði að samstarfi Norður-Atlantshafsþjóðanna Stefán Friðbjarnarson Hafið geymir þær auðlindir sem gera Ísland byggilegt. Lífskjör þjóðarinnar og efnahagslegt fullveldi hennar eruað stærstum hluta sótt í lífríki sjávar. Það var því ekki vonum fyrr þegar Alþingi fól ríkisstjórninni (þingsályktun í marzmánuði árið 1987) að vinna að "ráðstefnu hér álandi um varnir gegn mengun við Ísland og annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi, þarsem sérstaklega verði fjallað um þá hættu sem fiskistofnum og mannvist á þessu svæði er búin vegna mengunar frá geislavirkum efnum".

I

Þingsályktun þessi var reist á tillögu um sama efni sem flutt var af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Í aprílmánuði 1987 er forsætisráðuneytinu send framangreind tilmæli [þingsályktun] Alþingis með formlegum hætti.

Í maímánuði 1989 - tveimur árum síðar - verður ráðuneytið sér úti um umsögn Siglingamálastofnunar ríkisins um ályktunina. Þar segir m.a.:

"Að mati Siglingamálastofnunar ríkisins væri bæði eðlilegt og sjálfsagt, með hliðsjón af vaxandi mengun sjávarins og hagsmuna Íslands varðandi verndun hafsins, að íslenzk stjórnvöld hefðu frumkvæði að því að halda hér ráðstefnu sem fjallaði um varnir gegn mengun sjávar í Norðaustur-Atlantshafi. Markmið slíkrar ráðstefnu ætti að vera fyrst og fremst að afla gagna til stefnumótunar og tillöguflutnings á alþjóðvettvangi um auknar varnir gegn mengun hafsins."

Siglingamálastofnun var hinsvegar þeirrar skoðunar að það myndi takmarka áhuga á og þátttöku í slíkri ráðstefnu, "ef hún fjallaði eingöngu um geislavirk efni, því staðreynd er, að það eru fjölmörg önnur vandamál sem við blasa og sum e.t.v. enn alvarlegri, eins og t.d. mengum af völdum lífrænna þrávirkra klórsambanda, svo sem PCB, DDT og DIOXXIN, þó ekki sé á neinn hátt dregið úr hættunni sem fylgir losun geislavirkra efna í sjó".

II

Siglingamálstofnun taldi tvenns konar ráðstefnur koma til greina:

Annars vegar ályktunarhæfa ráðstefnu þar sem saman kæmu ráðherrar, embættismenn og vísindamenn þeirra þjóða, sem hagsmuna eiga að gæta á Norðaustur-Atlantshafi. Tilgangur hennar væri þá að móta sameiginlega stefnu gagnvart alþjóðlegu samstarfi.

Hins vegar "hreina faglega ráðstefnu vísindamanna" þarsem leitast yrði við að varpa ljósi á ástand mála á þessu hafsvæði með áherzlu á áhrif mengunarefna á lífríki hafsins. Slík ráðstefna ætti "að renna stoðum undir nauðsyn þess að tekin verði upp öflug sönnunarbyrði vegna losunar efna í hafið, sem ætti að vera kappsmál fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf, því enn eru mörg ríki, þar á meðal meðalstór iðnríki, þeirrar skoðunar, að nota skuli hafið til förgunar úrgangs eins lengi og ekki er sýnt fram á að það valdi mengun sjávar".

III

Íslendingar hafa að sjálfsögðu leitað eftir auknu samstarfi þjóða um varnir gegn sjávarmengum. Fjölþjóðaráðstefnur hafa og verið haldnar um sjávarmengun (s.s. Alþjóðleg þingmannaráðstefna í Danmörku 1989 og Norðursjáv arráðstefna í Hollandi 1990). Ráðstefna hér landi af því tagi, sem þingsályktunin frá 1987 gerir ráð fyrir, bíður hins vegar enn síns tíma.

Friðrik Sophusson (S-Rv) beindi formlegri fyrirspurn til forsætisráðherra sl. vor um þetta efni, þ.e. um framkvæmd á þeim þingvilja, sem þingsályktunin felur í sér. Ráðherra sagði ráðstefnu sem þessa kalla á viðamikinn undirbúning. Það "sýnist ekki skynsamlegt", sagði hann, "að stefna að því nú að halda slíka ráðstefnu fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta árs 1990 eða fyrri hluta árs 1991".

Tíminn er fugl sem flýgur hratt, stendur einhvers staðar. Spurning er, hvort tími þeirrar ríkisstjórnar, sem enn situr að nafninu til, flýgur úr höndum hennar áður en frumkvæði íslenzkra stjórnvalda að ráðstefnu um varnir gegn sjávarmengun á Norðaustur-Atlantshafi fer í þann farveg sem vilji Alþingis stendur til.