Hlutabréf Ísaga hf. ­ verður það í sænskri eða íslenskri eigu? Sænska stórfyrirtækið AGA og Draupnissjóðurinn í kapphlaupi um hlutabréf fyrirtækisins HLUTHAFAR í fyrirtækinu Ísaga hf. eru í eftirsóknarveðri stöðu þessa dagana.

Hlutabréf Ísaga hf. ­ verður það í sænskri eða íslenskri eigu? Sænska stórfyrirtækið AGA og Draupnissjóðurinn í kapphlaupi um hlutabréf fyrirtækisins

HLUTHAFAR í fyrirtækinu Ísaga hf. eru í eftirsóknarveðri stöðu þessa dagana. Óvænt eftirspurn er eftir hlutabréfum þeirra í þessu gamalgróna fyrirtæki, sem ekki hefur farið ýkja mikið fyrir á íslenskum fyrirtækjamarkaði til skamms tíma. Annars vegar eru það fulltrúar Kaupþings sem eru í sambandi við hluthafana og bjóðast til að kaupa öll hlutabréf Íssaga sem til boða standa fyrir hönd sænska efnafyrirtækisins AGA, og hins vegar eru það fulltrúar Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, sem fyrir hönd Draupnissjóðsins bjóðast tilað kaupa þessi sömu bréf á ekki lakara verði heldur en tilboðSvíanna hljóðar upp á.

Ísaga hf. er yfir sjötíu ára gamalt fyrirtæki, og upphaflega stofnað með þátttöku nokkurra Íslendinga og sænska fyrirtækisins AGA, enda nafn fyrirtækisins myndað með þvíað bæta Ís framan við AGA. Sænska fyrirtækið hrökklaðist útúr Ísaga fyrir allmörgum áratugum, og hefur það allt síðan verið alfarið í eigu Íslendinga. Fyrirtækið átti löngum misjöfnu gengi að fagna en fyrir röskum áratug keypti Pétur Pétursson í Fiskafurðum allstóran hlut í fyrirtækinu og er hann nú stjórnarformaður þess. Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun að fyrirtækið eignaðist mestanpart öll gashylki sem eru í notkun hér á landi og má heita að Ísaga hafi allt síðan verið nær einrátt hér á markaðinum með hvers kyns gas, svo sem súrefni og köfnunarefni, til nota bæði fyrir sjúkrahúsin og iðnaðinn, t.d. vegna logsuðu. Ísaga hefur mörg undanfarin ár skilað góðum hagnaði, fjárhagsstaða þess þykir mjög sterk og veltan á síðasta ári losaði um 300 milljónir króna. Hluthafar nú munu vera um 30 talsins.

Kapphlaupið nú má að nokkru leyti rekja til þess að á aðalfundi fyrirtækisins í júní sl. var sú ákvörðun tekin í stjórn þess að aflétt skyldi öllum hömlum á viðskipti með hlutabréfin sem áður höfðu gilt. Fljótlega upp úr því sneri stærsti hluthafinn í Ísaga, Þórður Einarsson, sendiherra í Svíþjóð, sér til Kaupþings og bauð því 20% hlut hans í fyrirtækinu til kaups. Niðurstaðan varð að Kaupþing keypti hlutabréf Þórðar. Samband komst á milli Kaupþings og forsvarsmanna AGA í Svíþjóð og leiddi það til þess að AGA keypti þessi hlutabréf. Jafnframt lýsti AGA því yfir við Kaupþing að það væri tilbúið að kaupa öll þau hlutabréf önnur í Ísaga sem til boða stæðu. Lögum samkvæmt getur sænska fyrirtækið eignast 49% hlut í íslenska fyrirtækinu en ekki eru talin nein tormerki á því að félagið geti eignast stærri hlut og jafnvel öll hlutbréfin með undanþágu frá viðskiptaráðuneytinu.

Þegar hér var komið sögu sneri fjárfestingafélagið Draupnissjóðurinn sér til Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka með ósk um að fulltrúar hans könnuðu hug annarra hluthafa Ísaga til þess að sjóðurinn keypti hlutabréf þeirra á sama verði og tilboð Svíanna hljóðaði upp á. Ástæður Draupnissjóðsins munu annars vegar vera þær að varhugavert þótti að erlendur aðili eignaðist íslenskt fyrirtæki með svo ráðandi stöðu á íslenska markaðinum, og hins vegar þær að hér væri um fjárhagslega mjög traust og vel rekið fyrirtæki, sem hentaði vel inn í það hlutabréfamengi eða samval sem félagið er með fyrir.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins mun tilboð AGA í hlutabréf Ísaga hafa hljóðað upp á 5,5 fallt nafnverð þeirra fyrir jöfnun. Á síðasta aðalfundi var hins vegar samþykkt 50% jöfnun hlutabréfanna, þannig að tilboð Svíanna til Kaupþings mun nú vera í kringum 3,67 en eitthvað lægra þá til hluthafanna þar sem Kaupþing mun ætla sér einhverja umboðsþóknun. VÍB býður á sama tíma um 3,65 ofan á nafnverð, svo að verðtilboð fyrirtækjanna er í reynd mjög hliðstætt.

Heimildarmaður Morgunblaðsins úr hópi hluthafa segir ástæður Svíanna fyrir því að vilja nú aftur inn í Ísaga einkum þær að forsvarsmenn fyrirtækisins telji Norðurlöndin öll heimamarkað þess og þar beri því að hafa ráðandi stöðu. Að einhverju leyti sé þessi áhersla nú byggð á því að forsvarsmenn þess telji sig hafa vísbendingu um að annað erlent fyrirtæki, Air Product, sé á leið hér inn á markaðinn. Það er líklegast að flestir hluthafarnir sjái sér þann kostinn vænstan að að selja við þessar kringumstæður, því að þegar svona risar ætla sér inn á markaðinn, þá gera þeir það hvort sem mönnum líkar það betur eða verr."

Hins vegar er enn óljóst að hvað miklu leyti hlutabréfin lenda í höndum Svíanna eða Draupnissjóðsins. Nokkuð ljóst mun þó vera að um 13% hlutur Péturs Péturssonar og Fiskafurða fer til Svíþjóðar en flestir aðrir munu nú hafa tilboðin til athugunar og því ekki vitað á þessari stundu að hvað miklu leyti þeir muni láta þjóðernis- og tilfinningaá stæður ráða ákvörðun sinni og taka tilboði Draupnissjóðsins í ljósi þess hversu áþekk tilboðin eru.