Kjartan Gissurarson Þú, Guð, sem stýrir stjarna her og stjórnar veröldinni, í straumi lífsins stýr þú mér með sterkri hendi þinni. Stýr minni tungu að tala gott og tignar þinnar minnast, lát aldrei baktal, agg né spott í orðum mínum finnast.

(Vald. Briem)

Ég get varla trúað því að hann afi minn sé dáinn og að ég eigi aldrei eftir að sjá hann oftar. Hann var alltaf svo góður við mig og við áttum svo margar skemmtilegar stundir saman. Afi hringdi oft í mig og varað glettast við mig, því hann gerði svo oft að gamni sínu.

Það var gaman að vera í veislum hjá afa, því þegar systkini hans komu var sungið dátt og hlegið svo hátt, eins og þeim einum er lagið.

Stundum fórum við afi með honum pabba á togaranum til Þýskalands, þá var afi í essinu sínu því hann var gamall sjóari. Þá var hann oft að segja mér sögur af því hvernig það var þegar hann var til sjós.

Afi hafði alltaf jafn gaman af að spila, hvort sem það var við okkur krakkana eða þegar hann spilaði brids við félaga sína.

Ég fór oft á spítalann í heimsókntil afa í sumar. Þar var hann alltaf svo kátur og ég var alltaf að vonaað hann færi að koma heim, en hann var veikari en við héldum.

Amma bað mig um að skila þakklæti til þeirra sem hjúkruðu afa svovel á Landspítalanum og lungnadeild Vífilsstaðaspítala.

Við söknum afa öll mikið en amma hefur misst mest og ég bið Guð að styrkja hana. Að lokum þakka ég afa fyrir allt, og bið Guð að geyma hann.

Maren Dröfn