Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson
Eiga hagsmunir fugla, spyr Gunnar Örn Gunnarsson, að vega meira en þúsunda manna?

EFTIR að úrskurður umhverfisráðherra birtist hinn 1. nóvember síðastliðinn um áframhaldandi kísilgúrnám úr Mývatni hafa birst greinar í blöðunum þar sem lýst er vanþóknun á því að Kísiliðjunni sé heimiluð námuvinnsla. Það er í sjálfum sér ekkert við það að athuga. Sem betur fer eru frjáls skoðanaskipti í landinu. Það er hins vegar verra þegar andinn í þessum skrifum er á þá lund að hér sé um að ræða pólitískt samsæri. Látið er í það skína að allir þeir sem komu beint eða óbeint að því að fyrrnefnd niðurstaða varð í málinu séu umhverfisvondir menn. Það verður að segjast eins og er að þessi málflutningur minnir óneitanlega á rök kommúnista sem viðhöfð voru hér áður fyrr um kapítalistana, auðvaldið.

Umhverfisvernd

Ég tel að flestir séu þeirrar skoðunar að stunda eigi öfluga umhverfisvernd á Íslandi. Það sem hins vegar skilur menn að í þessu máli er hversu langt eigi að ganga. Mín skoðun er sú að umhverfisvernd og nýting náttúruauðlinda geti vel átt saman og segja má að það sé sú stefna sem er ofan á í samfélaginu almennt því ef svo væri ekki væri ómögulegt að byggja þetta land. Til eru hins vegar þeir sem vilja að viðhöfð sé mjög hörð náttúruvernd. Nú er það þannig að það er ákaflega auðvelt að vera harður umhverfisverndarsinni. Maður setur einfaldlega upp sjálfskipaðan geislabaug og verður á móti öllum framkvæmdum sem hugsanlega hafa einhver áhrif á náttúruna og þá sérstaklega ef þær eru í nógu mikilli fjarlægð. Þar með eru nánast allar framkvæmdir mannsins og allir þeir sem standa fyrir þeim orðnir óvinir náttúrunnar. Framkvæmdaaðilar, svo sem ríkisvaldið, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, eru í mjög erfiðri stöðu. Þeir eru einfaldlega komnir með horn sem þeir geta seint náð af sér. Vinnubrögð umhverfissinna eru síðan að halda uppi látlausum áróðri sem er mjög erfitt að verjast. Ekki er um neina málamiðlun að ræða. Þegar aðrar skoðanir eða niðurstöður verða ofan á í samfélaginu er samt haldið áfram að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Umhverfismatsferlið

Nú vill svo til að í landinu gilda lög um umhverfismat sem eru til þess fallin að skýra leikreglurnar. Þessi lög eru nauðsynleg og mikilvæg og voru stórt skref í átt að aukinni umhverfisvernd í landinu. Í stuttu máli ganga þessi lög út á það að ef einhver hefur hug á því að fara út í framkvæmdir sem hugsanlega geta breytt eða skaðað náttúru landsins ber að fara í gegnum ákveðið vinnuferli sem byggist á umhverfismatsskýrslu. Það tók Kísiliðjuna á þriðja ár að fara í gegnum þetta ferli og kostaði um 50 milljónir sem er mikið fé fyrir ekki stærra fyrirtæki. Niðurstaða fékkst síðan í málinu með úrskurði Skipulagsstofnunar, eftir að farið hafði verið tvisvar í gegnum matsferlið þar sem fjöldinn allur af sérfræðingum kom að málinu. Úrskurður Skipulagsstofnunar var síðan kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann í grundvallar atriðum eftir að hafa farið mjög vel yfir öll gögn og kallað til sérfræðinga sér til ráðgjafar.

Hver eru síðan viðbrögð þeirra er voru undir í málinu? Jú, þeir byrja á því að ráðast á umhverfisráðherra og starfsmenn Skipulagsstofnunar með stanslausum ásökunum. Þeir eru sakaðir um ófagleg vinnubrögð, að hafa ekki tekið tillit til náttúrunnar, helstu vísindamanna, alþjóðlegra samþykkta, ekki látið náttúruna njóta vafans o.s.frv. Látið er í veðri vaka að hér hafi verið um einhverskonar pólitískt samsæri að ræða. Það er sem sagt verið að segja að allir þeir sem komu að þessu máli, þar með talið starfsmenn Skipulagsstofnunar, ráðuneyta, ríkisstjórnin, ýmsir sérfræðingar, framkvæmdaaðilinn o.s.frv., hafi bundist einhvers konar pólitískum böndum og ákveðið að þetta skyldi verða niðurstaðan í málinu. Auðvitað er þetta fjarri sanni. Það sem einfaldlega gerðist var að úrskurður varð Kísiliðjunni í vil vegna þess að það er ekkert sem hefur komið fram í málflutningi andstæðinga Kísiliðjunnar sem réttlætir stöðvun vinnslunnar. Ég tel að málflutningur sjálfskipaðra verndara náttúrunnar í þessu máli sé í raun mjög andlýðræðislegur. Þrátt fyrir að hinu lýðræðislega ferli sé lokið er samt haldið áfram. Hamrað er á ríkisvaldinu með sömu rökum og höfð voru í frammi í umhverfismatsferlinu, en hafði verið hafnað þar. Það er, að mínu mati, einnig verið að grafa undan lýðræðinu þegar verið er að ýta undir einhvers konar samsæriskenningar. Hafa ber það í huga að svona málflutningur gerir alla aðra úrskurði jafn trúverðuga, einnig þegar þeir hugnast náttúruverndarmönnum. Allur almenningur hefur þá þegar misst trú á umhverfismatsferlinu og þeim stofnunum sem þar koma nærri. Við skulum hafa það hugfast að ákaflega auðvelt er að koma fram með ásakanir á hendur ríkisvaldinu og segja - látum náttúruna njóta vafans, verið er að skaða náttúruna o.s.frv. en allt án rökstuðnings. Að svara svona ásökunum er hins vegar mjög erfitt og jafnvel ógjörningur vegna þess að svörin eru oft það flókin að allur almenningur, hvað þá fjölmiðlar, missa strax áhugann. Skýringarnar komast sem sagt ekki til skila.

Reykjavík - Mývatn

Það er fróðlegt að fylgjast með umræðum um flugvöllinn í Reykjavík þessa dagana í samhengi við Mývatnsmál. Þau rök hafa komið fram að ekki skuli þétta byggðina í Vatnsmýrinni vegna lífríkisins þar. Vísindamenn hafa haldið því fram að mjög neikvætt sé að flytja flugvöllinn út í Skerjafjörðinn vegna þess að lífríki fugla sé í hættu. Ég spyr: Eiga hagsmunir nokkurra fugla að vega meira en hagsmunir þúsunda manna? Og hvað með alla mófuglana í kringum Stór-Reykjavík sem þurfa að víkja fyrir byggð ef hún er látin þenjast út í stað þess að þéttast? Hafa þeir enga talsmenn? Hér er aftur umhverfisumræðan komin á villigötur að mínu mati. Það er alveg ljóst að flestar framkvæmdir manna í umhverfinu kalla á breytingar en það er ekki þar með sagt að þær séu neikvæðar.

Reykvíkingar eru að fara að kjósa einir um framtíð flugvallarins og finnst það sjálfsagt. Þeim finnst þetta vera mikilvægt mál fyrir sig þó að það skipti að vísu máli fyrir flesta landsmenn. Þegar kemur að málum eins og málefnum Mývatns er það aftur á móti ekkert einkamál Mývetninga heldur allra landsmanna. Og þar finnst Reykvíkingum sjálfsagt að ráða hvað sé gert, allt í krafti stærðar. Er það réttlæti?

Höfundur er framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar hf.