Bandaríkin: Íslensk fyrirtæki á flöskuvatnsráðstefnu Washington, frá Ívari Guðmundssyni fréttaritara Morgunblaðsins.

Bandaríkin: Íslensk fyrirtæki á flöskuvatnsráðstefnu Washington, frá Ívari Guðmundssyni fréttaritara Morgunblaðsins.

SEXTÍU og níu fyrirtæki, sem framleiða tært drykkjarvatn, eða sem hyggja á sölu "flöskuvatns" eins og það er almennt kallað hér, hafa boðað þátttöku sína í ráðstefnu, sem hefst hér í Washington í dag, fimmtudag. Tvö íslensk fyrirtæki hafa boðað þátttöku sína í ráðstefnunni: Thor hf. og Vífilfell hf.

Flest þátttökufyrirtækjanna eru frá Kanada, alls 25. Sex eru frá Ástralíu, 5 frá Bretlandi, eitt frá Danmörku og eitt frá Svíþjóð. Fyrir ráðstefnunni gengst félagsskapur er nefnist "Alþjóðlega flöskuvatns sambandið", sem hefir aðalbækistöðvar sínar í Alexandríu, ná grannabæ Washington-borgar.

Í Bandaríkjunum eru nú starfandi fyrirtæki, sem framleiða flöskuvatn undir 600 mismunandi vörumerkjum. Á sl. ári nam framleiðsla þessara fyrirtækja samtals 1.632,5 milljón gallónum af tæru flöskuvatni. Verðmæti framleiðslunnar nam 1.347,5 milljónum dollara. Auk þess framleiddu bandarísk fyrirtæki 137,1 milljón gallóna af gosvatni (sódavatni), 346,9 milljón dollara virði.

Á sl. ári nam innflutningur flöskuvatns og gosvatns samtals 137,1 milljón gallónum að verðmæti 55,6 milljónir dollara.

Talið er að einn af hverjum sex íbúum Bandaríkjanna neyti reglulega flöskuvatns til drykkjar. Í Kaliforníu er hlutfallið 1 af hverjum þremur. Íbúar Kaliforníu neyta nærri helmings alls flöskuvatns, sem selt er í Bandaríkjunum.