Þing Sovétríkjanna: Sovétlög æðri lögum einstakra lýðvelda Moskvu. Reuter.
SOVÉSKA þingið samþykkti í gær að sovésk lög væru æðri lögum einstakra sovéskra lýðvelda og borga. Einnig samþykkti þingið að auka enn frekar hið víðtæka framkvæmdavald Míkhaíls Gorbatsjovs, leiðtoga sovéska kommúnistaflokksins.
Tilgangur samþykktar sovéska þingsins er talinn vera sá að hnykkja á sovéskri lögsögu í málum er varða jafnt sjálfstæðismál einstakra lýðvelda og niðurrif Lenín líkneskja á torgum bæja og borga.
Óljóst er með hvaða hætti lögunum verður framfylgt þar sem fjöldi lýðvelda og einstakra sovéskra borga hirðir ekki um ákvarðanir Moskvustjórnarinnar í veigamiklum málum og fer sínu eigin fram.
Þingið samþykkti m.a. að Gorbatsjov gæti upp á eigin spýtur rekið yfirmenn fyrirtækja, stofnana og samtaka sem hlýddu að hans mati ekki opinberum fyrirmælum.