Ný borhola sú kraftmesta við Kröflu 25. BORHOLAN var nýlega boruð á Kröflusvæðinu og þykir lofa góðu um mikil afköst.

Ný borhola sú kraftmesta við Kröflu

25. BORHOLAN var nýlega boruð á Kröflusvæðinu og þykir lofa góðu um mikil afköst. Að sögn Ásgríms Guðmundssonar jarðfræðings hjá Orkustofnun stefnir í að holan verði sú kraftmesta á svæðinu til þessa og geti að óbreyttu afkastað allt að 9-10 megawöttum. Ásgrímur sagði þó ekki unnt að fullyrða um afköstin fyrr en að liðnum nokkrum vikum. Við borunina voru tekin sýni til rannsókna á efnainnihaldi þannig að meta megi hvernig svæðið sé fært til virkjana eftir eldsumbrot liðinna ára. Að sögn Ásgríms liggja niðurstöður úr þeim mælingum ekki fyrir en við eldsumbrotin gerði kvika það svæði sem fyrirhugað hafði verið að yrði að alvinnslusvæði Kröfluvirkjunar óvinnsluhæft.

Til að Kröfluvirkjun nái áætlaðri 75 megavatta orkuframleiðslu þarf að koma annarri vélasamstæðu virkjunarinnar í notkun en með henni er áætlað að framleiða um 30 megavött. Algengast er að borholur á svæðinu afkasti um það bil 5 megavöttum og má því búast við að 6 holur þurfi tilað ná fullum afköstum en standi nýja holan undir björtustu vonum og skili 9-10 megavöttum og svæðið reynist hafa náð sér eftir umbrotin þarf minna að leggja í boranir en áætlað var og Kröfluvirkjun nær þá fullum afköstum fyrr og með minni tilkostnaði en áætlað hafði verið.

Morgunblaðið/Birkir Fanndal

Kraftmesta borholan á Kröflusvæðinu blés duglega þegar Egill Sigurðsson, umsjónarmaður borholanna, vitjaði hennar.