EB-PUNKTAR Kristófer Már Kristinsson Frjáls eins og fuglinn fljúgandi eftir 1992 FRAMKVÆMDASTJÓRN EB hefur nú lagt til atlögu við ríkisverndaða einokun stóru flugfélaganna í Evrópu með hálfvolgum stuðningi aðildarríkjanna.

EB-PUNKTAR Kristófer Már Kristinsson Frjáls eins og fuglinn fljúgandi eftir 1992

FRAMKVÆMDASTJÓRN EB hefur nú lagt til atlögu við ríkisverndaða einokun stóru flugfélaganna í Evrópu með hálfvolgum stuðningi aðildarríkjanna. Dregið verður úr opinberum áhrifum og afskiptum af farmiðaverði, bannað verður að gera samninga sem fela í sér einhverskonar skiptingu á farþegum eða ágóða af flugleiðum. Samræmdar reglur um flugleyfi eiga að stuðla að því að flugfélög getiflogið þangað sem þau vilja þegar þau vilja. Tillögur framkvæmdastjórnar EB fela jafnframt í sér að EB verði eitt flugsvæði í framtíðinniþannig að loftferðasamningar við ríki utan EB færu í gegnum framkvæmdastjórnina.

Það er opinbert leyndarmál að það er dýrara að fljúga innan Evrópu en innan Bandaríkjanna. Talsmenn evrópskra flugfélaga kunna á þessu margvíslegar skýringar en þeirri líklegustu hefur lítið verið haldið á lofti. Flugfélög innan Evrópu njóta verndar gagnrýnislausra ríkisafskipta og grimmrar hagsmunavörslu bæði opinberra og hálfopinberra starfsmanna. Flest stóru flugfélögin eru að meirihluta í ríkiseign og þau sem eru það ekki njóta sérstakrar pólitískrar verndar.

Flugfélögin sjálf hafa lítið verið gefin fyrir samkeppni og stórt mein eru samningar sem þau gera sín á milli um verð og þjónustu m.a. skiptingu farþega og ágóða á tilteknum flugleiðum, með fulltingi ríkisstjórna. Miklar efasemdir eru uppi um áhuga félaganna á mikilli röskun á því viðskiptaumhverfi sem þau hafa búið við. Þá er og efast um að mögulegt sé að lækka verð flugmiða þó ekki væri nema vegna þess að flugvellir og flugumferðarstjórn í Evrópu þarfnast endurskipulagningar og mikillar fjárfestingar sem sennilegast er að farþegarnir verði að borga. En nú þykir hilla undir breytingar sem væntanlega skila bæði flugfélögum og farþegum ómældum hagnaði til langs tíma litið. Framkvæmdastjórn EB telur sig loksins vera að ná árangri í baráttu sinni fyrir auknu frelsi í flugrekstri innan bandalagsins.

Breytingar í áföngum

Árið 1987 samþykktu samgönguráðherrar aðildarríkja EB fyrsta skref af þremur í átt að auknu flug frelsi. Í því fólst m.a. samkomulag um að draga úr samningum um skiptingu á sætaframboði og sætanýtingu auk þess sem slakað var á reglum um afsláttarfargjöld. Þá voru og gerðar ráðstafanir sem ætlað varað greiða fyrir samkeppni. Aðildarríkin féllust á að draga úr þeirri kröfu að 50% framboðinna sæta sé ráðstafað til innlendra flugfélaga. Karel van Miert sem fer með samgöngumál innan framkvæmdastjórnarinnar sagði að árangur þessa fyrsta skrefs yrði að teljast hóflegur. Það er a.m.k. ljóst að ekki lækkuðu fargjöld og lítt bólaði á frjálsri samkeppni en flugleiðum fjölgaði nokkuð. Árið 1988 voru teknar upp 65 nýjar flugleiðir innan EB og árið 1989 voru nýjar leiðir 62 en sama ár var þjónustu hætt á 13 af þessum nýju leiðum. Ef til vill var mikilvægasta atlagan gegn ríkiseinokuninni reglur sem skikka stjórnvöld til að leyfa samkeppni á flugleiðum þarsem fjöldi farþega eða flugferða fer fram úr tilteknu hámarki.

Annað skref í átt til aukins frelsis var tekin í vor en þá samþykktu ráðherrar nýjar aðgerðir og nokkrar breytingar á samþykktinni frá 1987 jafnframt því sem þriðja og ef til vill síðasta skrefið var ákveðið í takt við innri markað bandalagsins, 1. janúar 1993.

Í samþykkt ráðherranna frá í vor sem tekur gildi 1. nóvember nk. er reglum um afsláttarfargjöld breytt. Hámarksafsláttur er hækkaður úr 55% í 70% af venjulegu miðaverði, þ.e. selja má miða á 30% af því sem telst venjulegt verð. Jafnframt þessu þurfa flugfélög ekki að fá samþykki viðkomandi ríkisstjórna til að gera breytingar á farmiðaverði og verðákvörðun verður ekki hnekkt nema báðar ríkisstjórnirnar neiti að samþykkja. Fram að þessu hafa flugfélög orðið að bera verðákvarðanir undir stjórnvöld sem hafa orðið að samþykkja þær til að þær nái framað ganga. Gert er ráð fyrir því að verðbreytingar sem eru meira en 20% frá verði fyrra árs verði skoðaðar sérstaklega. Reglur um svokölluð Apex-gjöld verða hertar og sett viðurlög við brotum á þeim. Árið 1987 var samþykkt að lækka hlutfall sæta sem ráðstafað var af stjórnvöldum til innlendra flugfélaga úr 50% í 40% og stefnt er að því að þetta hlutfall verði komið niður í 25% árið 1992. Flestir flugvellir sem voru undanþegnir samþykktunum 1987 missa nú sérstöðu sína, aðallega flugvellir í Danmörku, á Norður-Ítalíu og Spáni. Samþykkt var að auka hlutdeild svokallaðra fimmtu réttinda og heimila flugfélögum sem millilenda að selja í allt að 50% af heimiluðu sætaframboði. Flugvél sem færi t.d. frá Keflavík til Frankfurt með millilendingu í París gæti þess vegna, ef samningar leyfðu, tekið farþega þar og flogið með þá áfram til Frankfurt. Nýjar reglur voru samþykktar vegna afnáms einkaréttar á flugleiðum. Frá 1. janúar nk. verður óheimilt að hafna beiðni um flugleyfi á flugleið ef farþegar eru fleiri en 140 þúsund eða flugferðir fleiri en 800 á undangengnu ári. 1. janúar 1992 verður viðmiðunin 100 þúsund farþegar eða 600 ferðir fram og tilbaka.

Framtíðin

Á fundi ráðherranna í vor náðist ekki að afgreiða hugmyndir annarsvegar um valdsvið framkvæmdastjórnarinnar og hins vegar um samræmdar reglur um úthlutun lend ingaleyfa. Þá verður ekki séð að aðildarríki EB deili með framkvæmdastjórninni fyllilega hugmyndum hennar um eitt evrópskt flugsvæði. Framkvæmdastjórnin hefur bent á að aðildarríkin hafi að meðaltali gert 60 loftferðasamninga hvert við ríki utan bandalagsins eða 660 samninga. Í mörgum tilfellum sé lítið Evrópuríki að semja við stórveldi. Það sé ljóst að skiptimynt í samningum sem gerðir væru af framkvæmdastjórninni fyrir hönd aðildarríkjanna yrðu miklu nota drýgri en þegar hver semur í sínu lagi, jafnframt sköpuðust möguleikar á nauðsynlegri samræmingu og yfirsýn. Þá hyggst framkvæmdastjórnin setja samræmdar reglur um vinnutíma flugáhafna og gefa út evrópskt skírteini fyrir atvinnuflugmenn. Erfiðast verður að tryggja að þessar nýju reglur tryggi raunverulega samkeppni og verði neytendum til hagsbóta. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að tillögum um samkeppnisreglur í flugrekstri sem eiga að tryggja að markmiðum frjálsrar samkeppni verði náð. Flugfélögin hafa verið sökuð um að bregðast við frelsinu með tilraunum til að tryggja sig gegn því. Sérstaklega er varað við samruna og samstarfssamningum sem miða að þvíað viðhalda einokunaraðstöðu stóru flugfélaganna. Framkvæmdastjórnin hefur undanfarið gert athugasemdir við samninga af þessu tagi sem hafa leitt til þess að stóru félögin hafa orðið að láta flugleiðir og lendingarleyfi til smærri félaga. Þetta gerðist t.d. þegar British Airways keypti keppinautinn British Caledonian og svipað er uppi á teningnum vegna Sabena World Airlines sem er samstarfsfyrirtæki Sabena, KLM og British Airways en óttast er að það fyrirtæki ætli sér, í skjóli sérstöðu Sabena, yfirburðaaðstöðu á flugvellinum í Brussel.

Framkvæmdastjórnin er ákveðin í að gera ekki sömu mistök og gerð voru í Bandaríkjunum en þar er hlutdeild stóru félaganna nú meiri en hún var fyrir breytingar til aukins frelsis. Innan Evrópu á frelsið að vera smáu félögunum til framdráttar jafnt sem hinum stóru.

Þessi fyrstu skref EB til aukinnar samkeppni í flugrekstri eru vísbending um framtíðina. Auðvitað er langt þangað til flugrekstur nær sönsum eftir áratuga ríkisvernd og ríkisafskipti. Flugrekstur hefur alla tíð goldið þess, að hafa vaxið út úr flugherjum og hefur þess vegna þótt sjálfsagður og eðlilegur vettvangur takmarkalausra ríkisafskipta. Það segir sína sögu að 1. janúar 1993 áað fella niður landamæri á milli aðildarríkja EB en í 30 þúsund feta hæð verða þau í fullu gildi. Evrópu er skipt niður í lítil konungsríki flugmálastjóra sem einir hafa næga þekkingu til að meta hvað er fyrir bestu. Stétt sem kallar síma "bid irectional speech facilities" deyr náttúrlega ekki úrræðalaus.

FRELSI - Miklar breytingar standa fyrir dyrum í flugmálum innan Evrópubandalagsins eftir 1992. Framkvæmdastjórnin er ákveðin í að gera ekki sömu mistök og gerð voru í Bandaríkjunum en þar er hlutdeild stóru félaganna nú meiri en hún var fyrir breytingar til aukins frelsis. Innan Evrópu á frelsið að vera smáu félögunum tilframdráttar jafnt sem hinum stóru.