Leikstjóri: Aileen Ritchie. Handrit: William Ivory. Aðalhlutverk: Ian Hart, Sean McGinley o.fl. Bretland, 1999. (93 mín.) Skífan. Öllum leyfð.

HÉR er á ferðinni bráðskemmtileg gamanmynd um hóp karlmanna í afskekktu þorpi á Írlandi og sífelld kvennavandræði þeirra. Í hálfgerðri örvæntingu ákveða karlarnir að auglýsa í bandarísku dagblaði eftir kynþokkafullum tvítugum konum sem ekki eru mótfallnar bústörfum. Eftir því sem biðin lengist magnast spennan og þorpslífið fer á annan endann. Hlýlegar en skarpar myndir eru dregnar upp af persónunum sem allar hafa sín sérkenni, kosti og galla og í raun er myndin ekki síður persónustúdía en gamanleikur. Þegar nær dregur er þó meinfyndin á köflum og sannarlega ein af perlunum sem finnast á myndbandamarkaðnum.

Heiða Jóhannsdóttir