ÞETTA er framhald af tæknigrein sem birtist fyrir um mánuði. Hér verður farið meira í saumana á tæknilegum atriðum en þá var gert. Þá var og ranglega farið með staðreyndir varðandi framleiðslukostnað.

ÞETTA er framhald af tæknigrein sem birtist fyrir um mánuði. Hér verður farið meira í saumana á tæknilegum atriðum en þá var gert. Þá var og ranglega farið með staðreyndir varðandi framleiðslukostnað. Eins og dæmið lítur út nú má framleiða venjulega bókarsíðu á um fimm hundruð ísl. kr. Þetta þýðir að vilji menn eiga bók sem rúmar t.d. venjulegt skáldverk í þeim skilningi að það sé allt inni á síðunum í einu kostar slíkt ekki minna en eitt til tvö hundruð þúsund kr. En hér má stinga að tveimur athugasemdum: Í rauninni er slík bók einnig nánast allt bókasafn heimsins, eða a.m.k. Netsins, því að ekki þarf nema að stinga henni í samband við Netið, e.t.v. þráðlaust, til að fá hvað sem er af þeim hluta heimsbókmenntanna sem kominn er inn á Netið. Þetta háa verð yrði þannig greitt fyrir nánast óendanlega stórt bókasafn, en ekki fyrir bók.

Í öðru lagi eiga menn val um það hvaða efni þeir hafa inni á síðunum hverju sinni. Íhaldssamur maður vill kannski hafa fyrirbrigðið sem líkast venjulegri bók og geta blaðað í heildarverkinu. Rafræni pappírinn er þess eðlis að hann heldur letrinu þótt straumur sé tekinn af, þannig að fyrir íhaldssama bókamenn má halda nánast öllum eiginleikum venjulegrar bókar, nema hvað pappírinn er (enn sem komið er) um tvöfalt þykkari en venjulegur bókapappír. Öðrum nægir að hafa færri síður sýnilegar. Ein mjög hugsanleg útgáfa er einungis spjald, þ.e. tvær blaðsíður sýnilegar, en lesandinn "skrollar" síðan yfir allt verkið.

Í þriðja lagi er gefinn framleiðslukostnaður sá sem við á nú á þessari stundu. Allri nýrri tækni fylgir að hún er dýrust í byrjun, bæði af því að lítið er framleitt á fyrstu stigum, og eftir er að fullkomna framleiðsluaðferðir.

Pappírinn er gerður úr nokkrum lögum, en það sem gefur litinn er kúlur sem innihalda vökva, en inni í þeim fljóta aftur hvít korn sem innihalda neikvæða rafhleðslu. Ysta lag pappírsins og lagið á bakvið litardropana innihalda rafskaut. Það sem tölvuútbúnaðurinn gerir er að setja rafsvið á hvern og einn dropa. Togist hvítu kornin út að yfirborðinu er áferðin lík og á óskrifuðum pappír. Ef rafsviðið ýtir þeim inn að miðju blaðsins er yfirborðið svart vegna vökvans sem kornin fljóta í. Áferðin er þegar orðin afar lík venjulegum letruðum hvítum pappír, og rafræni pappírinn er ekki síðri aflestrar en sá venjulegi. Upplausnargæði eru svipuð og hjá venjulegum leysiprentara. Geta má þess einnig að búast má við að sjá megi fyrstu bækurnar, spjöldin eða hvað það verður, innan örfárra ára.

eftir Egil Egilsson