JÓNAS Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, telur að seint verði ofmetið framlag norska rithöfundarins og landkönnuðarins Helge Ingstad, til fornleifarannsókna í því skyni að sanna Ameríkuferðir norrænna manna mörgum öldum á undan...

JÓNAS Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, telur að seint verði ofmetið framlag norska rithöfundarins og landkönnuðarins Helge Ingstad, til fornleifarannsókna í því skyni að sanna Ameríkuferðir norrænna manna mörgum öldum á undan Kólumbusi. Fornleifarannsóknir Ingstad og konu hans, Anne Stine Ingstad, nyrst á Nýfundnalandi, þar sem nú heitir L'Anse aux Meadows, leiddu í ljós norrænar mannvistarleifar frá því um 1000 e. Kr. Var það talið sannað að norrænir menn hefðu siglt til Ameríku um 500 árum á undan Kólumbusi. Helge Ingstad lést í vikunni, 101 árs að aldri.

Ingstad-hjónin fundu rústir af um átta húsum og einnig fundust munir af norrænum uppruna, s.s. snældusnúður, næla auk kolagjalls. Kolefnisgreiningar leiddu í ljós að minjarnar væru frá því um 1000 e. Kr. "Þetta voru einu ótvíræðu minjarnar sem fundist hafa um norræna menn í Ameríku," segir Jónas Kristjánsson. "Þetta er alveg öruggt og svæðið er friðlýst sem náttúrufjársjóður. Uppgötvun Ingstad-hjónanna er stórmerkileg fyrir þær sakir að það þykir fullkomlega sannað að þarna voru norrænir menn á ferðinni."

Jónas kynntist Ingstad og konu hans lítillega á árum áður og þótti mikið til beggja koma. "Hann var stórmerkilegur maður og við stöndum sannarlega í þakkarskuld við hann fyrir að hafa fundið þessar minjar. Rannsóknir hans eru einnig uppörvandi fyrir allar Íslendingasagnarannsóknir og hafa haft mikla þýðingu fyrir kynningu sagnanna erlendis enda staðfesta rannsóknir hans frásagnir þeirra af ferðum manna til Vesturheims."

Gekk skipulega til verks

Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, segir Ingstad hafa fengið mikinn áhuga á frásögnum Íslendingasagna um landnám Grænlands norænna manna og fund Ameríku úr norðri. "Síðan fékk hann þá hugmynd að leita beinlínis að minjum um norræna menn á Nýfundnalandi," segir Þór. "Margir höfðu reynt slíkt hið sama en Ingstad gekk mjög skipulega til verks og leitaði m.a. upplýsinga hjá fólki sem bjó á þessum slóðum. Rannsóknarvinnan leiddi hann til norðurodda Nýfundnalands þar sem hann hitti mann sem kannaðist við að hafa séð fornar rústir í grenndinni. Þegar Ingstad athugaði þær ásamt konu sinni komu í ljós norrænar rústir. Fundi þeirra var fyrst í stað tekið með fyrirvara en við nánari rannsóknir sannfærðist umheimurinn um að þarna væru komnar fram óyggjandi sannanir fyrir veru norrænna manna frá því um 1000 og fyrir uppgötvun sína uppskáru Ingstadhjónin heimsfrægð."