1. apríl 1971 : "Að undanförnu hefur verið hamrað á því í Tímanum, að vegna rangrar skattvísitölu muni nú verða stórhækkun á sköttum.
1. apríl 1971 : "Að undanförnu hefur verið hamrað á því í Tímanum, að vegna rangrar skattvísitölu muni nú verða stórhækkun á sköttum. Þetta er alrangt varðandi hækkanir, sem urðu á árinu 1970, því að skattvísitalan hefur verið hækkuð meir en nemur hækkun framfærsluvísitölu eða meðalhækkun launa. Skattvísitalan hækkar þannig um 20% en meðalframfærsluvísitala um 13,12% og meðalhækkun launa er 18,4%. Skattvísitölunni er ætlað það hlutverk að breyta persónufrádrætti og þrepum í skattstigum í því skyni, að menn greiði ekki hlutfallslega hærri skatta, þótt laun hækki vegna verðlagsþróunar en auðvitað hljóta skattar að hækka í sama hlutfalli og launabreytingar. Sú kenning er fjarri lagi, að skattvísitala skuli hækka til samræmis við framfærsluvísitölu, ef engin kauphækkun verður eða hún er mun lægri en hækkun framfærslukostnaðar. "

1. apríl 1981 : "Fátt vekur meiri óhug hjá mönnum en fréttir af launmorðum. Þær minna á, hve skammt er milli feigs og ófeigs, þegar ofbeldishneigðin er annars vegar og sálsjúkir menn komast yfir vopn. Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, slapp naumlega undan böðulshendi á mánudaginn. Fyrir honum sat innan um blaðamenn ungur maður, sem samkvæmt fréttum hefur áður vígbúist vegna ferða Bandaríkjaforseta í nágrenni við sig. Engir hafa lýst því betur á síðari tímum en bandarískir rithöfundar, hve einkennilegar hvatir geta búið að baki hjá þeim mönnum, sem fremja hin hroðalegustu ódæðisverk. Nægir í því sambandi að nefna bækur þeirra Truman Capotes, "In Cold Blood", og Norman Maylers, "The Executioner's Song". Báðar hafa þessar bækur selst í milljónum eintaka og þær hljóta að vekja hjá lesanda sínum efasemdir um réttmæti þess að leyfa frjálsa vopnasölu, eins og tíðkast í Bandaríkjunum. Morðið á John Lennon fyrir skömmu hefur enn skerpt þetta mikla vandamál í hugum Bandaríkjamanna og í kjölfar árásarinnar á Reagan mun enn reyna á það, hvort viðhalda beri frjálsræðinu eða taka upp byssuleyfi. Ronald Reagan hefur verið talsmaður frjálsræðisins á þessu sviði."