[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brezka tímaritið The Economist gerði fyrr í mánuðinum að umtalsefni þá togstreitu, sem ríkir innan Evrópusambandsins á milli þeirra, sem vilja auka frjálsræði í efnahagsmálum og hinna, sem áfram vilja planta í reglugerðaskóg sambandsins.

Brezka tímaritið The Economist gerði fyrr í mánuðinum að umtalsefni þá togstreitu, sem ríkir innan Evrópusambandsins á milli þeirra, sem vilja auka frjálsræði í efnahagsmálum og hinna, sem áfram vilja planta í reglugerðaskóg sambandsins. Í grein, sem birtist 10. marz, er bent á að allt talið á leiðtogafundi ESB í Lissabon í fyrra um "samkeppnishæfasta hagkerfi í heimi", sem sambandið vilji koma á fyrir árið 2010, sé ekki án fyrirvara. Ríki á borð við Spán og Bretland styðji umbótastefnu í efnahagsmálum heils hugar, en önnur ESB-ríki, t.d. Frakkland og Belgía, hafi minni áhuga á efnahagsumbótum en þeim mun meiri á hinni "félagslegu Evrópu" þar sem áherzlan sé öll á réttindi launþega og umfangsmikið velferðarkerfi.

"Það er ekki nóg með að erfitt sé að hrinda stefnunni um frjálsari markað í framkvæmd. Sumir þættir í stefnu ESB eru beinlínis markaðsfjandsamlegir," segir The Economist. Blaðið tekur dæmi af vinnumarkaðnum; að innan sambandsins séu á ferðinni tillögur um breytingar á vinnumarkaðslöggjöf, sem séu líklegar til að gera hagkerfi Evrópuríkja ósveigjanlegra, auk þess sem þær gangi þvert gegn nálægðarreglunni svokölluðu, þ.e. að Evrópusambandið eigi ekki að setja lög fyrir sambandið í heild nema raunveruleg þörf sé á þeim.

Greinarhöfundur nefnir sérstaklega tillögu að nýrri tilskipun ESB um "upplýsingar og samráð í fyrirtækjum". Í núverandi löggjöf ESB er kveðið á um að fyrirtæki, sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í aðildarríkjum ESB (og raunar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu), hafa starfsstöðvar í a.m.k. tveimur ríkjum og a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra, skuli láta kjósa "samstarfsráð" launþega, sem hafi víðtækan rétt til upplýsinga og samráðs um stærri breytingar í starfsemi fyrirtækisins. Nýju tillögurnar fela í sér að þessi skylda verði útvíkkuð til allra fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, burtséð frá því hvort þau séu með starfsemi í fleiri en einu landi. Bretar og Írar hafa mótmælt þessum tillögum og telja þær andstæðar öllum hefðum og venjum á sínum vinnumarkaði, en greinarhöfundur The Economist telur litlar líkur á að andstæðingar tillagnanna hafi betur.

Annað dæmi, sem tímaritið nefnir, er um væntanlegar reglur, sem muni takmarka rétt fyrirtækja til að ráða til sín starfsfólk tímabundið frá "liðsaukafyrirtækjum". Vitnað er í tölur frá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey, um að árin 1996-1998 hafi slík tímabundin störf verið 11% allra nýrra starfa í ESB og jafnframt hafi atvinnuleysi verið minnst í þeim aðildarríkjum, sem höfðu hæst hlutfall launþega, sem ráðnir voru tímabundið með þessum hætti. Tímabundnu störfin geri fyrirtækjum kleift að bregðast hratt við breytingum á eftirspurn og séu dæmi um þann efnahagslega sveigjanleika, sem forystumenn ESB segist sækjast eftir. Engu að síður bendi flest til að sambandið muni setja reglur, sem leggi hömlur við þessu ráðningarformi.

Einstök ríki innan ESB hafa þrátt fyrir þetta mikið svigrúm til að ráða vinnumarkaðslöggjöf sinni sjálf. The Economist nefnir dæmi af Spáni, þar sem miklar breytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum í átt til aukins sveigjanleika á vinnumarkaði. Það hefur verið gert ódýrara fyrir vinnuveitendur að segja upp fólki og um leið auðveldara og áhættuminna að ráða fólk í ný störf. Í The Economist, sem kom út 17. marz, er fjallað um aðgerðir franskra og þýzkra stjórnvalda í vinnumarkaðsmálum og bendir blaðið á að þrátt fyrir allt hafi Frakkar gert talsvert til þess á undanförnum árum að gera vinnumarkað sinn sveigjanlegri. Þeir hafi m.a. breytt eldri löggjöf, sem hindraði að fólk væri ráðið í hlutastörf eða tímabundin störf og lækkað tryggingagjöld. Eftir stjórnarskiptin í Þýzkalandi hafi þarlend stjórnvöld hins vegar fært ýmislegt til verri vegar í vinnumarkaðsmálum, snúið við umbótum sem stjórn Kohls kom á og látið undan þrýstingi verkalýðshreyfingarinnar á ýmsum sviðum. Þar ber hæst eflingu svokallaðra hagsmunanefnda launþega, sem voru valdamiklar fyrir en hafa nú fengið veigameira ráðgjafarhlutverk þegar kemur að uppsögnum. Jafnt samtök atvinnurekenda sem efnahagssérfræðingar hafa gagnrýnt þessa breytingu harðlega, sagt hana draga úr möguleikum fyrirtækja á að bregðast við sveiflum á mörkuðum og gera minni fyrirtæki tregari til að ráða nýtt starfsfólk.

Forskot

Bandaríkjanna

Í leiðara The Economist er kveðið upp úr um að þótt einstök Evrópusambandsríki séu að gera vel hvað það varðar að auka sveigjanleika á vinnumarkaði, sé sambandið í heild á rangri leið. ESB megi hvergi slaka á viðleitni sinni til að auka frjálsræði, samkeppni og sveigjanleika í efnahagslífinu, ekki sízt á vinnumarkaðnum. Skoðun blaðsins er að Evrópuríki eigi að stefna að því að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri í takt við það, sem gerist í Bandaríkjunum. Jafnvel þótt hagvöxtur sé meiri í Evrópu í augnablikinu en í Bandaríkjunum, séu horfur á hagvexti til lengri tíma litið hagstæðari vestan hafs. "Jafnvel þótt uppsveiflan í Bandaríkjunum sé á enda mun hið sveigjanlega hagkerfi þeirra ekki aðeins valda því að þau eigi auðveldara með að vinna sig út úr kreppunni, heldur veitir það þeim mikið forskot til lengri tíma litið," segir leiðarahöfundur blaðsins.

The Economist bendir á að atvinna hafi aukizt tvöfalt hraðar í Frakklandi en í Þýzkalandi undanfarin fjögur ár vegna þess að Frakkar hafi aukið sveigjanleika á vinnumarkaði en Þjóðverjar tekið skref til baka. Engu að síður sé franski vinnumarkaðurinn eins og "gigtarsjúklingur" samanborið við þann bandaríska. Evrópuríkin hafi ekki efni á að bíða með umbætur í vinnumarkaðsmálum, m.a. vegna þess að framleiðniaukning, sem leiði af fjárfestingu í upplýsingatækni, verði meiri þar sem markaðurinn er sveigjanlegur. Bandaríkin hafi aukið framleiðni og það muni nýtast þeim til lengri tíma, þrátt fyrir niðursveifluna nú. Ósveigjanlegur vinnu- og vörumarkaður hindri hins vegar frjálst flæði launþega og fjármagns, sem sé nauðsynlegt til að leysa framleiðniaukningu úr læðingi og auka lífsgæði.

Loks bendir tímaritið á að takist að auka atvinnu í Evrópusambandsríkjunum með umbótum á vinnumarkaði, geti það stuðlað að því að leysa þann vanda, sem Evrópuríkin standi frammi fyrir vegna þess að íbúar þeirra verði að meðaltali sífellt eldri og æ færri vinnandi menn þurfi að standa undir opinberum stuðningi við ellilífeyrisþega. Sem stendur sé atvinnuþátttaka í ESB aðeins 60%, en í Bandaríkjunum sé hún 75%. Takist að jafna þennan mun með því að fjölga störfum, standi Evrópuríkin mun betur að vígi. "Atvinnuleysi í Evrópu er sem stendur tvöfalt meira en í Bandaríkjunum. Ef atvinnuleysi fer vaxandi á ný á komandi ári, munu evrópskir stjórnmálamenn án efa kenna efnahagslægðinni í Bandaríkjunum um. Þeir ættu frekar að viðurkenna að orsökin liggur fyrst og fremst í þeirra eigin vinnumarkaðsstefnu," segir The Economist.

Þessar umræður um mismunandi sveigjanleika á vinnumarkaði í ESB annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar eru ekki nýjar af nálinni. Evrópusambandsríkin verða að viðurkenna að atvinnuþátttaka er þar mun minni en í Bandaríkjunum og frá því á miðjum áttunda áratugnum hefur störfum fjölgað fjórum sinnum hraðar í Bandaríkjunum en í Evrópu. Kjarni málsins er sá að í ýmsum Evrópusambandsríkjum er afar dýrt og fyrirhafnarmikið fyrir fyrirtæki að fækka starfsfólki. Fyrir vikið eru þau líka hikandi við að fjölga starfsfólki þegar efnahagslífið er í uppsveiflu og eftirspurn eykst, vegna ótta við að uppsveiflan sé aðeins tímabundin.

Íslenzki sveigjanleikinn

Hver er staðan og horfurnar á íslenzkum vinnumarkaði í samanburði við önnur ríki Evrópu og Bandaríkin? Það er ljóst að íslenzkur vinnumarkaður er mjög sveigjanlegur, a.m.k. samanborið við flest önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins, og að mörgu leyti líklega líkari þeim bandaríska. Sé atvinnuþátttaka mælikvarði á sveigjanleika vinnumarkaðarins, eiga Íslendingar heimsmet samkvæmt tölum sem birtar eru á vef Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Á Íslandi eru 84% þjóðarinnar á aldrinum 15 til 64 ára virk á vinnumarkaði, samanborið við 74% í Bandaríkjunum, 65% í Þýzkalandi og 60% í Frakklandi, svo dæmi séu nefnd.

Á ráðstefnu, sem Samtök atvinnulífsins og Norræna ráðherranefndin efndu til fyrr í mánuðinum, fóru fram athyglisverðar umræður um "íslenzka sveigjanleikann" og framtíðarhorfur varðandi lagaumhverfi vinnumarkaðarins. Í erindi Sigurðar Líndal lagaprófessors á ráðstefnunni kom fram að atvinnurekendur á Íslandi hefðu haft víðtækan stjórnunarrétt og frelsi til að taka ákvarðanir um rekstur fyrirtækja án íhlutunar trúnaðarmanna eða annarra fulltrúa launþega og stéttarfélaga. Þá hefðu atvinnurekendur haft fullt frelsi til að segja upp starfsmönnum innan þeirra marka, sem lög og kjarasamningar mæla. Uppsagnarfrestir hefðu verið rýmkaðir en engar skyldur verið lagðar á atvinnurekanda að tilgreina ástæður fyrir uppsögn.

Meðal ástæðna fyrir þessu nefndi Sigurður smæð íslenzkra fyrirtækja og náin tengsl stjórnenda og starfsfólks, auk þess að atvinnuvegir á Íslandi hafi löngum verið sveiflukenndir vegna náttúrulegra ástæðna, þannig að oft hafi verið þörf skjótra viðbragða.

"Það hefur ýtt undir uppsagnarfrelsi atvinnurekenda að atvinnuástand hefur lengi verið gott á Íslandi þegar á heildina er litið þótt atvinnuleysis hafi gætt staðbundið og þá einkum þegar áföll eða óhöpp hafa dunið yfir. Hér virðist það einnig hafa áhrif að starfsmenn virðast eiga tiltölulega auðvelt með að flytjast milli starfa og jafnvel atvinnugreina. Afleiðingin verður að atvinnurekandinn tekur litla áhættu við ráðningu þar sem hann á yfirleitt þann kost að segja starfsmanni upp," sagði Sigurður. "Allt hefur þetta leitt til þess að íslenzkur vinnumarkaður hefur verið sveigjanlegur og tiltölulega auðvelt hefur verið að rétta af sveiflur sem orðið hafa. Almennt eru Íslendingar opnir fyrir nýjungum, þannig að ekki hefur verið veruleg andstaða stéttarfélaga við hagræðingu, nýrri tækni. Undantekningar eru þó."

Sigurður sagði að augljósar breytingar væru hins vegar að verða á íslenzkum vinnumarkaði, annars vegar vegna færri og stærri fyrirtækja og hins vegar vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, en samkvæmt honum þarf að leiða í íslenzk lög ýmiss konar evrópska löggjöf á sviði vinnuréttar. Að sögn Sigurðar vekur athygli að hlutur löggjafans í því að skipa málum á vinnumarkaði fer sívaxandi og löggjöfin verður sífellt smásmugulegri. Sigurður nefndi ýmis nýmæli í lögum, sem ættuð eru frá Evrópusambandinu, sem dæmi um að réttur stjórnenda til ákvarðanatöku væri skertur, skriffinnska ykist og tafir yrðu á að teknar yrðu ákvarðanir, en allt ylli þetta auknum kostnaði. Þar á meðal eru lög um hópuppsagnir, réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, vinnutíma og áðurgreind evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, en slík samstarfsráð eru lítt eða ekki þekkt í íslenzkum fyrirtækjum. "Fyrir þjóðfélagið í heild verður afleiðingin ósveigjanlegri vinnumarkaður sem er verulegur ókostur í litlu og sveiflukenndu hagkerfi, þótt hafa verði í huga að dregið hefur úr sveiflum með vaxandi tækni. Þetta kann að draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja og ef til vill um síðir bitna á launþegum," sagði Sigurður.

Viðbragðsflýtir með sveigjanleika

Þórarinn V. Þórarinsson, forstjóri Landssímans og fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, hélt einnig erindi á ráðstefnunni, þar sem hann færði rök fyrir því að það væri helzt sveigjanleikinn í íslenzku þjóðlífi, snerpan sem smæðin og nálægðin leyfði, sem vægi upp á móti fjarlægð landsins frá mörkuðum, litlum heimamarkaði, töluverðum kostnaði vegna lítils málsamfélags og meiri launahækkunum en annars staðar gerðust. Regluveldið og ósveigjanleikinn í Evrópu hefðu orsakað þrálátt atvinnuleysi og minni hagvöxt en í Bandaríkjunum og Japan. Hagkerfi Evrópuríkja væru seinni til að taka við sér við góð vaxtarskilyrði. "Skýringin er fyrst og fremst ein, afar ósveigjanlegur vinnumarkaður eins og það heitir," sagði Þórarinn. "Hömlurnar við því að fækka fólki eru svo miklar í Evrópu að það stendur í vegi fyrir því að fyrirtæki fjölgi fólki."

Þórarinn benti á að þegar olíukreppurnar þrengdu að hagkerfi Vesturlanda á áttunda áratugnum og fyrirtæki brugðust við með fækkun starfsmanna og lækkun kostnaðar til að viðhalda samkeppnishæfni, hefðu evrópskir stjórnmálamenn ráðizt að einkennum vandans en ekki orsökunum. Réttur fyrirtækja til að segja upp starfsmönnum hefði verið takmarkaður til að draga úr atvinnuleysinu, sem hefði í raun haft þveröfug áhrif því að þegar aðstæður bötnuðu á ný hefðu fyrirtækin hikað við að ráða til sín fólk fyrr en þau hefðu verið algerlega viss um að vöxturinn, sem þau sáu og skynjuðu, væri varanlegur þannig að þau sætu ekki uppi með hóp starfsmanna, sem engin verkefni væru fyrir. Þessu hefði hins vegar verið öndvert farið hér; Íslendingar hefðu borið gæfu til að viðhalda frjálsu samningssambandi milli fyrirtækja og starfsmanna og í raun væru litlar hömlur á því hvernig ráðningarsambandi væri slitið, svo fremi það væri gert með tilskildum fyrirvara.

"Áhættan að ráða til sín fólk til að mæta tímabundinni uppsveiflu eða eftirspurn er því lítil, því að reynist uppsveiflan ekki varanleg þannig að verkefnin séu ekki lengur fyrir hendi, er sársaukalaust fyrir báða aðila að slíta ráðningarsambandi. Við höfum reynt þessi fræði á okkar eigin skinni í íslenzku efnahagslífi. Það mátti undrum sæta hvað hratt efnahagslífið brást við fyrstu merkjum þess að kreppan sem þjakaði þjóðlífið frá 1989 og fram til 1993 væri að láta undan síga. Viðsnúningurinn varð ör og miklu hraðari en gerzt hefur nokkurs staðar annars staðar þar sem ég hef séð til við sambærilegar aðstæður. Skýringin er klár, það er áhættulaust að fylgja fyrstu sprotum vaxtarins og það verður svo aftur grundvöllur að áframhaldandi uppbyggingu," sagði Þórarinn.

Hann benti jafnframt á að sú krafa, sem víða er í lögum í Evrópuríkjum, að tilgreina beri ástæður uppsagnar, væri ekki endilega til þess fallin að bæta hlut launamanna. "Ég held einmitt að það að atvinnurekendur eru ekki þvingaðir til þess að draga fram einhverjar skriflegar formlegar ástæður fyrir ráðningarslitum sé einn mikilvægasti þátturinn í að vinnumarkaður okkar er svo sveigjanlegur sem raun ber vitni. Það er enginn dómur fólginn í því að vera sagt upp, það er svo eðlilegt í síbreytilegu samfélagi eins og okkar að þarfir fyrirtækja breytist með sama hætti og þarfir starfsmanna breytast," sagði Þórarinn.

Hann sagðist ekki efast um það eitt andartak að þeir, sem lengst vildu ganga í að takmarka rétt atvinnurekenda til uppsagnar starfsmanna, gerðu það af góðum hug og með það eitt að markmiði að bæta stöðu launamanna á vinnumarkaði. "Með sama hætti og ofurvernd starfsmanna á evrópskum launamarkaði fyrir uppsögnum hefur ekki leitt til aukins atvinnuöryggis heldur meira atvinnuleysis, er ég sannfærður um að ef dregið væri úr sveigjanleika íslenzks vinnumarkaðar, þá mundi það með beinum hætti koma fram í kjörum okkar á tiltölulega stuttum tíma. Sveigjanleikinn er alveg örugglega sterkasta vopnið í því að vega upp margt annað í okkar aðstæðum og ákvörðunum sem er atvinnulífinu fjötur um fót. Væri því feiknalegt slys ef gerðar væru grundvallarbreytingar á þessari skipan íslenzks vinnumarkaðar sem sannarlega hefur alið af sér hærra atvinnustig og meiri og betri vöxt í lífskjörum en við sjáum í nokkru öðru Evrópulandi til þessa," sagði Þórarinn V. Þórarinsson.

Undir þessi sjónarmið tók Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem sagði á ráðstefnunni að þau Evrópulönd, sem byggju við ósveigjanlegastar reglur á vinnumarkaði, þyrftu að ná fram uppstokkun hjá sér fremur en að gera slíkt ástand að útflutningsvöru, sem myndi skaða samkeppnishæfni Evrópu sem heildar þegar upp væri staðið. "Menn hljóta að velta öllum þessum hlutum fyrir sér út frá samkeppnishæfni Evrópu í heild, t.d. gagnvart Bandaríkjunum, því reglur vinnumarkaðarins hafa vissulega áhrif á samkeppnisstöðu þjóða á heimsmarkaði. Við Íslendingar þurfum til viðbótar að gaumgæfa að hvaða leyti nýjar reglur á þessum sviðum falla innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og hvar við kynnum að vilja halda sérstöðu sem við teljum einhvers virði," sagði Ari.

Drögumst

ekki inn í

úrelta stefnu

Þessar umræður eru afar þarfar og gagnlegar í ljósi þess að í almennri umfjöllun um nýja löggjöf er gjarnan einblínt á þörf þess að auka réttindi launþega með fleiri og umfangsmeiri reglugerðum, án þess að í öllum tilvikum sé horft á málið í víðara samhengi og reynt að meta, hvort slíkt geti leitt til þess að vinnumarkaðurinn verði ósveigjanlegri og fyrirtækjum reynist örðugra að búa til ný störf. Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að launþegar njóti öryggis í starfi og góðra vinnuaðstæðna. Slíkt reyna flest fyrirtæki líka að skapa að eigin frumkvæði, enda er gott starfsfólk orðið helzta auðlind margra fyrirtækja. Eftir því sem fyrirtæki stækka og leggja meiri áherzlu á starfsmannastjórnun verða samskiptin milli vinnuveitanda og starfsmanns faglegri og formbundnari. En auðvitað verður fólk að vera reiðubúið að færa sig á milli starfa með því að rekstur og þarfir fyrirtækja breytast. Þar kemur margt til; í fyrsta lagi sveiflukennt eðli íslenzks efnahagslífs, í öðru lagi tæknibreytingar, sem gera sum störf úrelt en skapa ný í staðinn og í þriðja lagi sívaxandi kröfur fyrirtækja til starfsmanna um hæfni og þekkingu. Allt gefur þetta ástæðu til að endurskilgreina hvað átt er við, þegar rætt er um atvinnuöryggi í daglegu tali; það þýðir ekki endilega að launþegi geti gengið að sama starfinu vísu um aldur og ævi, heldur frekar að alltaf sé til nóg af störfum fyrir alla. Og það er deginum ljósara að sveigjanlegur vinnumarkaður er bezt til þess fallinn að tryggja atvinnuöryggi í þeim skilningi. Til þess að sveigjanleikinn virki með hagkvæmustum hætti þurfa þó ýmsir þættir að vera í betra lagi en í dag, t.d. þarf að bæta framboð endur- og símenntunar til að gera launþega betur í stakk búna að skipta um starfsvettvang, hvort heldur þeir færa sig til innan fyrirtækja eða á milli vinnustaða.

Margt bendir til að ein ástæða þess að íslenzkur vinnumarkaður er sveigjanlegri en í öðrum Evrópuríkjum sé að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi sýnt þessum sjónarmiðum meiri skilning en stéttarfélög víða annars staðar og verið reiðubúnari að taka höndum saman við atvinnurekendur um að tryggja hagvöxt og atvinnusköpun, frekar en að reyna að þröngva upp á þá reglugerðum og skriffinnsku. Það veldur hins vegar áhyggjum að nú virðast slíkar sendingar fremur koma frá Alþingi, samkvæmt forskrift frá Evrópusambandinu, án þess að aðilar vinnumarkaðarins hafi beðið um þær. Eðli EES-samningsins er slíkt að Íslendingar hafa afar takmörkuð áhrif á þær reglur, sem ESB setur fyrir allt efnahagssvæðið. Það er vissulega áhyggjuefni ef hér öðlast sjálfkrafa gildi alls konar löggjöf, sem dregur úr sveigjanleika íslenzks vinnumarkaðar, án þess að Íslendingar hafi nokkuð um það að segja.

Útlitið er þó kannski ekki alveg svo svart. Einstök aðildarríki EES hafa þrátt fyrir allt mikið svigrúm til að skipa vinnumarkaðslöggjöf sinni eftir eigin höfði. Séu íslenzk stjórnvöld vakandi fyrir því svigrúmi, sem EES-reglur bjóða oft upp á hvað varðar framkvæmd þeirra, má draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum á vinnumarkaðinn. Oft er t.d. heimilað að aðilar vinnumarkaðarins semji um málið sín á milli og finni þar með hagkvæmustu lausnina, fremur en að Alþingi setji flókin og ósveigjanleg lög. Svo má spyrja hvort íslenzk stjórnvöld hafi sýnt nægilegan dugnað í samskiptum sínum við ESB-ríkin við að útskýra fyrir þeim sérstöðu íslenzks vinnumarkaðar og hverju "íslenzki sveigjanleikinn" hefur skilað. Aðalatriðið er að Íslendingar láti ekki að nauðsynjalausu draga sig inn í stefnu, sem hefur gengið sér til húðar á meginlandi Evrópu og haft þveröfug áhrif á atvinnuástandið við það sem upphaflega var ætlað.