RÍKISSTJÓRNIN samþykkti í gærmorgun tillögu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fullgildingu svokallaðs Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta...

RÍKISSTJÓRNIN samþykkti í gærmorgun tillögu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fullgildingu svokallaðs Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Að mati umhverfisráðuneytisins kallar fullgilding samningsins ekki á lagabreytingar hér á landi.

Markmið samningsins er að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núverandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans.

Árósasamningurinn var samþykktur á fjórða ráðherrafundinum um umhverfi Evrópu í Árósum 25. júní 1998. Sama dag undirrituðu 35 ríki, þ.á m. Ísland, og Evrópubandalagið samninginn og fjögur ríki undirrituðu hann til viðbótar áður en frestur til þess rann út 21. desember 1998. Aðild að samningnum er opin aðildarríkjum Efnahagsráðs Evrópu, Evrópubandalaginu og þeim ríkjum sem hafa stöðu samráðsaðila í Efnahagsráði Evrópu. Tíu ríki hafa fullgilt samninginn, en hann öðlast gildi 90 dögum eftir að sextánda fullgildingarskjalið er afhent til vörslu.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er Árósasamningurinn ný tegund samnings um umhverfismál. Hann tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi og viðurkennir að menn hafa skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum. Samningurinn staðfestir að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd. Hann beinir athyglinni að gagnverkandi áhrifum almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi og kveður á um ný ferli varðandi þátttöku almennings í viðræðum um alþjóðlega samninga og framkvæmd þeirra.

Borgarar verða að hafa rétt til þátttöku í ákvarðanatöku

Í formála samningsins er gerð grein fyrir þeim væntingum og markmiðum sem voru hvatinn að samningnum. Hugmyndin er sú að fullnægjandi umhverfisvernd sé undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda tengd þeirri hugmynd að hver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og beri skylda til að vernda umhverfið. Í formálanum er dregin sú ályktun að til þess að geta krafist þessa réttar og sinnt þessari skyldu verði borgarar að hafa aðgang að upplýsingum, hafa rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og njóta réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum. Þar er enn fremur viðurkennt að sjálfbær og vistvæn þróun byggist á virkri ákvarðanatöku stjórnvalda sem grundvallist bæði á umhverfislegum sjónarmiðum og framlagi almennings. Þegar stjórnvöld veiti almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál og geri honum kleift að eiga aðild að ákvarðanatöku stuðli þau að markmiðum samfélagsins um sjálfbæra þróun.