½ Leikstjórn og handrit: Roger Kumble. Aðalhlutverk: Amy Adams, Robin Dunne og Sarah Thompson. Bandaríkin, 2000 (91 mín.) Skífan. Bönnuð innan 12 ára.

Fyrir nokkrum árum var sígild skáldsaga Choderlos de Laclos, Les Liaisons Dangereuses, eða Hættuleg kynni, uppfærð á hvíta tjaldið með nokkuð frumlegum hætti. Atburðarásin var færð úr frönsku hirðinni til New York-borgar samtímans og voru aðalhlutverkin í höndum unglinga. Hér er haldið áfram með þá hugmynd en þar sem frekar er unnið út frá fyrrnefndri kvikmynd en bókmenntaverkinu opnast svigrúm til að endurmeta sum þeirra gilda sem koma fram í bókinni. Andstæðu tálkvendisins og góðhjörtuðu jómfrúarinnar, sem liggur fyrri frásögnunum til grundvallar, er til dæmis hafnað á skemmtilegan hátt. Við fyrstu sýn virðist hér vera um útvatnaða framhaldsmynd að ræða en í rauninni er þetta prýðileg mynd sem kemur á óvart.

Heiða Jóhannsdóttir