Guðrún Vera Hjartardóttir
Guðrún Vera Hjartardóttir
Í annað skipti þetta ár fæ ég fallegan póst um hvernig á að flokka heimilissorpið frá Sorpu.

Í annað skipti þetta ár fæ ég fallegan póst um hvernig á að flokka heimilissorpið frá Sorpu. Í huga minn kemur atvik sem átti sér stað þegar ég skilaði af mér samviskusamlega flokkuðu rusli niður á endurvinnslustöðina hjá Ánanaustum eftir að fá flokkunartöflu frá Sorpu "Flokkum til framtíðar". Eftir að ég hafði beðið í bílaröð í þó nokkurn tíma tók á móti mér ungur maður. Ég byrja á að benda honum stolt á að ég sé með ruslið vel flokkað eins og bæklingurinn bendir á, bylgjupappír sér, skrifstofupappír sér, meira að segja búin að hafa fyrir að taka burt allt lím og plast af umslögum, fernur sér og plastið sér. Maðurinn tilkynnti mér að ég væri hvort sem er með svo lítið magn af sorpi að ég gæti skutlað þessu öllu nema fernunum í blandaða gáminn. Ég tek fram að eldhúsið hjá mér var orðið fullt af flokkuðu sorpi og því fannst mér að öll sú flokkun sem ég hefði gert væri óþörf. Samt hafði ég farið alveg eftir bæklingnum. Hvað var ekki að virka? Þetta atvik rændi mig áhuganum og fyllti mig vonleysi. Ég spurði mig hvort væri ekkert að marka þennan bækling. Ég hætti að flokka eftir flokkunartöflunni frá Sorpu. Alls konar plasti, bylgjupappír og auglýsingapappír, sem kemur innan um lúguna á hverjum degi, henti ég í ruslatunnuna. Og núna kemur inn um lúguna umslag frá Sorpu með fyrirsögninni "Mundu að flokka og skila á endurvinnslustöðvarnar". Nú spyr ég eftir að sjá einn flokkinn merktan "Dagblöð og tímarit, bæklingar, kiljur og auglýsingapóstur" hvort hann fari í endurvinnslu? Til hvers að flokka ef þetta fer allt sömu leiðina? Mig langar að koma aftur að starfsmanninum. Kannski hefur þetta lítið að gera með hann sjálfan og meira með þá starfsmenntun sem Sorpa veitir starfsfólki sínu. Mér finnst fáránleg þau viðbrögð sem ég mætti hjá Sorpu. Eins og það væri engin meðvitund um að öll þjóðin hefði fengið flokkunarbækling sendan frá þeim og heldur ekki áhugi á að íslenska þjóðin væri farin að flokka að einhverju viti eins og svo margar nágrannaþjóðir eru löngu farnar að gera. Það þarf að upplýsa þjóðina og sýna fram á hversu mikilvægt það er að við flokkum það rusl sem er í heimahúsum og fyrirtækjum.

Kannski er ekki nóg að senda bækling því ég veit að margir henda öllum bæklingum í ruslið! Kannski væri fróðlegt að gera skemmtilegan sjónvarpsþátt um endurvinnslu Sorpu þar sem við fengjum að fylgjast með endurvinnslu á nokkrum tegundum af efnum frá því að komið er með það í endurvinnslu þangað til það hefur verið endurunnið. Jafnvel þótt það sé sent til útlanda. Því meira spennandi!

Hvað verður um ruslið/efnið sem við látum frá okkur? Ég held að bæklingur einn og sér sé ekki nægur. Við þurfum að sjá hvað verður um þessa flokkun. Sjá tenginguna og hvers virði það er að flokka úrgang. Ég er viss um að það liggja endalausir möguleikar í flokkun og endurvinnslu. En það kostar peninga og hvað með það. Við eyðum í annað eins!

GUÐRÚN V. HJARTARDÓTTIR, myndlistarmaður,

Stórholti 14,

Reykjavík.

Frá Guðrúnu Veru Hjartardóttur: