Blanchett var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Elizabeth.
Blanchett var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Elizabeth.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ástralska leikkonan Cate Blanchett kemur enn á óvart í spennumyndinni The Gift þar sem hún leikur spákonu með miðilshæfileika. Blanchett er ein af kunnustu leikkonum Ástralíu en hefur starfað í Hollywood undanfarið. Arnaldur Indriðason skoðaði feril hennar.

Það er oft talað um að góð kvenhlutverk skorti í kvikmyndirnar en þó hefur það gerst á undanförnum misserum að leikkonur hafa gert sér mat úr bitastæðum hlutverkum. Nefna má sem dæmi um nýlegar myndir eins og Chocolat þar sem Juliette Binoche fer með aðalhlutverkið. Einnig Krjúpandi tígur, dreki í leynum þar sem tvö af þremur helstu hlutverkunum eru leikin af konum og það frábærlega vel. Julia Roberts hreppti Óskarinn fyrir Erin Brockovich, svo sem kunnugt er. Þriðjungurinn af Traffic Steven Soderberghs fjallar um konu sem Catherine Zeta-Jones leikur og hefur ekki gert betur á sínum ferli. Og Cate Blanchett fer á kostum í drauga- og spennumyndinni The Gift þegar hún sem miðill kemur upp um morðmál í suðurríkjunum.

Ekki eins svartsýn

Blanchett er ein af efnilegustu ungu leikkonunum sem starfa við kvikmyndir í dag. Hún er 31 árs gömul og vakti fyrst athygli þegar hún lék á móti Ralph Fiennes í myndinni Óskari og Lúsindu árið 1997. Frami hennar hefur verið skjótur og má hún þakka það stórkostlegri túlkun sinni á Elizabetu Englandsdrottningu árið eftir í myndinni Elizabeth; þar kom hún fram sem þungavigtarleikkona. Einn af mótleikurum hennar var landi hennar, Geoffrey Rush, sem einnig er horfinn inn í Hollywood-myndirnar.

Bæði voru kunnir sviðsleikarar í Ástralíu áður en þau sneru sér að kvikmyndunum og þau léku saman fyrir um átta árum í leikritinu Oleanna í Sydney. "Fólk segir við mig, drottinn minn hvað þetta hefur gerst hratt, og meinar þá kvikmyndirnar sem ég hef leikið í og ég hef orðið kunn fyrir, en það er miklu lengri saga á bak við leik minn en felst í kvikmyndunum. Eitt var að ljúka leiklistarskólanum. Annað var að fá tækifæri til þess að leika á móti Geoffrey Rush í Oleanna vegna þess að Geoffrey er álitinn guð í mínu landi og ég hafði lengi dáðst úr fjarska að því sem hann var að gera. Það eru átta ár síðan."

Líf hennar hefur tekið miklum breytingum frá því hún fór að leika á hvíta tjaldinu. Ekki aðeins hefur hún orðið heimsþekkt heldur hefur glíma hennar við leiklistina breyst. "Því meira sem maður leikur í bíómyndum því meira sjálfstraust hefur maður á einu sviði og því minna sjálfstraust hefur maður á einhverju öðru sviði. Það er svolítið skrítið. Og ég hef enga hugmynd um hvort það hafi eitthvað að gera með hvar ég er stödd í mínu starfi eða einkalífi. Kannski er ég bara ekki eins svartsýn og ég var."

Í miðilshlutverkinu

Eftir að hún lék í Elizabeth ákvað tók Blanchett að sér nokkur aukahlutverk í myndum eins og Hinum hæfileikaríka Ripley og Pushing Tin, sem ekki náði hingað í bíóin. "Eftir Elizabeth þóttist ég sjá þá leið sem biði mín í kvikmyndunum og ég gat auðveldlega farið en ég þekkti sjálfa mig nógu vel til þess að vita að ég var ekki tilbúin að fara hana," sagði Blanchett í viðtali fyrir tveimur árum. "Ég vil gera ólíka hluti og leika ólík hlutverk. Ég hefði til dæmis ekki getað fundið betra móteitur eftir Elizabeth en hlutverk mitt í Pushing Tin, sem gerist í heimi flugumferðarstjóra."

Síðan þá hefur hún tekið á ný að sér aðalhlutverkin ef svo má segja og leikur í hverri myndinni á fætur annarri. Næstu myndir Cate Blanchett eru m.a. The Shipping News og Hringadróttinssaga 1-3, sem frumsýndar verða á þessu ári og næstu tveimur en í þeim leikur hún Galadríel undir leikstjórn nýsjálenska leikstjórans Peter Jacksons, og loks Bandits þar sem hún leikur á móti Bruce Willis og Billy Bob Thornton en leikstjóri er Barry Levinson. Og nú er verið að dreifa The Gift um heiminn þar sem hún leikur spákonu með miðilshæfileika en lögreglan í smábæ í suðurríkjunum fær hana til þess að hjálpa sér að hafa uppi á ungri konu er hefur horfið.

Til þess að undirbúa sig undir hlutverk miðilsins kynnti Blanchett sér hvernig þeir starfa og heimsótti miðil í Savannah og reyndi að taka samtöl þeirra upp á band. "Rafmagnstæki virka ekki vel í kringum mig," sagði miðillinn við hana, og í ljós kom að tækið virkaði ekki. "Svo ég náði í annað tæki," segir Blanchett, "og það virkaði ekki heldur. Ég hélt kannski að innstungunni væri um að kenna vegna þess að við vorum staddar í gömlu húsi en þegar hún var farin reyndi ég tækið aftur með sömu innstungunni og þá allt í einu virkaði það."

Hún segist aldrei hafa leitað til miðils á ævinni en þegar hún var að undirbúa sig undir hlutverkið hitti hún þá ófáa og kynntist starfsaðferðum þeirra. "Og það sem þeir áttu allir sameiginlegt var að þeir sögðust opna sig algerlega þegar þeir væru með fundi. Ég held að það sé nokkuð líkt því að vera leikari. Þú verður að láta það sem gerist streyma beint í gegnum þig."

Hamingjan og Blanchett

Það vakti nokkra athygli að hún skyldi velja sér hlutverk miðilsins í The Gift undir leikstjórn Sam Raimis, sem kunnur er vestra fyrir hrollvekjur sínar, vegna þess að Blanchett er talin í hópi vönduðustu leikara og jafnvel yfir það hafin að leika í hrollvekjum. Hún blæs á allt slíkt og var ákaflega ánægð með samstarfið við Raimi, sem m.a. á að baki Evil Dead 1-3. Leikarinn, leikstjórinn og handritshöfundurinn Billy Bob Thornton skrifaði handritið og það var fyrst og fremst það sem vakti áhuga hennar. "Það var frábærlega samið," segir hún. Og um Raimi hefur hún þetta að segja: "Ég hef séð fjölmargar myndir um fólk með miðilshæfileika en Sam getur búið til betri hrollvekju en flestir aðrir vegna þess að hann ber virðingu fyrir hrollvekjunni. Myndirnar sem hann hefur gert standa sér á báti en hann er ákaflega mannlegur leikstjóri."

Blanchett leikur miðilinn Anne Wilson sem er ekkja og hefur enn ekki komist yfir dauða eiginmanns síns en "er sífellt að hverfa aftur til fortíðarinnar og síðan til nútímans og loks inn í framtíðina, svo ég var í einskonar limbói þegar ég lék hana".

Hún lítur á myndina í heild sinni og hlutverk sitt út frá því þegar hún velur sér verkefni í kvikmyndunum. "Fyrst les ég handritið og kynni mér karakterinn. En svo vil ég fá að vita hverjir aðrir verða í myndinni og skoða hvort ég vilji vinna með þeim hópi fólks. Ég hef verið mjög heppin hingað til hvað það varðar."

Hún segir að það erfiðasta við að leika í kvikmynd sé að þurfa að hlusta á sína eigin rödd. "Það er hræðilegt. Þess vegna sé ég aldrei tökur dagsins eða hvað það er kallað, mér finnst hræðilegt að heyra í mér."

Og á einum stað segir hún þegar hún er spurð að því hvort hún sé ánægð með þann árangur sem hún hefur náð sem leikkona: "Ég hef alltaf óttast það að vera hamingjusöm vegna þess að það virkar svo staðnað eða átakalaust. En ég held að ég geti sagt að ég sé hamingjusöm í þeim skilningi að ég er ekki hrædd við að gera mistök eða lenda í tímabundu þunglyndi. Það þýðir að margt af því sem ég tók inn á mig fyrir ekki svo löngu, hrekkur núna af mér eins og ekkert sé."

Hún heldur áfram: "Þetta er erfið spurning vegna þess að hamingja er eitthvað sem þú vilt ekki endilega viðurkenna að þú búir yfir og þú vilt ekki að hún hverfi þegar þú hefur upplifað hana. Ég hef komist að því að því minna sem ég hugsa um hamingjuna, því hamingjusamari er ég."