SIGRÍÐUR Pálmadóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, heldur fyrirlestur á vegum Rannsóknarstofnunar KHÍ næstkomandi þriðjudag, 3. apríl, kl. 16.15.

SIGRÍÐUR Pálmadóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, heldur fyrirlestur á vegum Rannsóknarstofnunar KHÍ næstkomandi þriðjudag, 3. apríl, kl. 16.15. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu M 201 í aðalbyggingu Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð og með fjarfundabúnaði í Menntaskólanum á Ísafirði og jafnvel á fleiri stöðum. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi eru varðveittar hljóðritanir með íslenskum alþýðusöng. Í fyrirlestrinum verður greint frá rannsókn á hljóðrituðu söngefni úr safninu í flutningi Ásu Ketilsdóttur, húsfreyju á Laugalandi við Ísafjarðardjúp. Um er að ræða barnagælur og þulur sem teknar voru upp árið 1999 auk þess að stuðst er við eldri upptökur sem gerðar voru á sjöunda og áttunda áratugnum. Fjallað verður um einkenni og flutningsmáta þessara söngva, sem Ása ólst upp við á Ytrafjalli í Aðaldal. Loks er leitað svara við spurningunni hvort efni af þessu tagi, sem ber með sér andblæ liðins tíma, eigi erindi við uppvaxandi kynslóð á tuttugustu og fyrstu öld.