Forsætisráðherra lýsti því yfir í vikunni að ráðuneyti hans væri að vinna að tillögum sem miðuðu að því að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður.

Forsætisráðherra lýsti því yfir í vikunni að ráðuneyti hans væri að vinna að tillögum sem miðuðu að því að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður. Vakti yfirlýsingin hörð viðbrögð stjórnarandstöðunnar sem og starfsmanna Þjóðhagsstofnunar sem staðhæfa að þeir hafi ekki vitað um fyrirætlunina.

TVEIR piltar voru hætt komnir á fimmtudag þegar snjóflóð ofan við skíðasvæði Seyðfirðinga hreif þá með sér og bar þá 200 metra niður á við. Hvorugan sakaði.

UPPGJÖRI á greiðslum til öryrkja, vegna breyttra viðmiðunarmarka varðandi tengingu örorkubóta við tekjur maka, lauk í vikunni. Alls verða 880 milljónir greiddar út til öryrkja eftir að skattar hafa verið dregnir frá.

GUÐNI Ágústsson landbúnaðarráðherra lýsti því yfir í vikunni að álagning smásala og heildsala á papriku væri tæp 85%. Kaupmenn mótmæla þessu og segja verðtolla valda háu verði. Verðstríð kaupmanna á papriku fylgdi í kjölfar deilnanna.

ÍSLANDSPÓSTI barst í vikunni hluti ösku bandarískrar konu og fylgdi sendingunni ósk ættingja hennar um að öskunni yrði dreift á fallegum stað á Íslandi. Íslensk lög heimila þetta ekki og verður askan því jarðsett í Gufuneskirkjugarði.