Kristbjörg Ágústdóttir, vararæðismaður Kanada og viðskiptafulltrúi, er nýkomin frá Kúbu þar sem hún dvaldi í hálfan mánuð.
Hvaðan ertu að koma?

Frá Kúbu.

Einhver sérstök ástæða fyrir ferðinni?

Kanadamenn eru þriðji stærsti viðskiptahópur Kúbu og margir af vinum mínum og kunningjum eru að flytja út á þennan markað. Þeir hafa lengi hvatt mig til að koma í heimsókn og ég lét loks verða af því.

Með hverjum fórstu?

Hildur Einarsdóttir, mágkona mín, var með mér fyrri vikuna.

Á hvaða hóteli varstu?

Við dvöldum í íbúð í einkaeign í Havana, höfuðborg Kúbu.

Hvernig kom höfuðborgin þér fyrir sjónir?

Borgin er mjög spennandi að mörgu leyti en þar búa um þrjár milljónir manna. Þar er að finna hrífandi byggingar frá því fyrir byltinguna en því miður er borgin í heild í mikilli niðurníðslu. Mannlífið er þó líflegt og heimamenn glaðlegir þrátt fyrir mikla fátækt.

Á Kúbu er í raun tvöfalt hagkerfi, peso er gjaldmiðll Kúbverja en ferðamenn borga með dollurum. Heimamenn hafa mjög lág laun, eða sem samsvara 10 til 20 dollurum á mánuði. Þá er skömmtunarkerfi í landinu á helstu nauðsynjum. Þegar ferðamenn fara út að borða þá kostar ein máltíð ásamt rauðvínsglasi mánaðarlaun heimamanna.

Eldra fólkinu í landinu, þ.e. sjötugum og eldri, finnst sósíalisminn eiga mikinn rétt á sér en unga fólkið vill flest ekkert frekar en hafa ferðafrelsi.

Bílafloti landsmanna er afar litríkur en í kringum 30% af bílunum eru frá árunum fyrir 1959, þ.e. bandarískir eðalvagnar og 30% sovéskar tegundir eins og Lada og Moskwitch, restin eru nýir bílar.

Einhverjir staðir sem vert er að heimsækja?

Við fórum á nokkur söfn þarna, m.a. á "Museo de la Revolución" sem er stærsta safn landsins en þar er að finna sögu byltingarinnar í landinu. Þar gefur meðal annars að líta ljósmyndir og blóðidrifinn fatnað af hetjum byltingarinnar og helstu andstæðingum hennar.

Frásögnin er reyndar mjög einsleit vegna þess að hún er aðeins sögð frá einni hlið. Þá fórum við einnig á "Casa Museo de Ernest Hemingway" eða safn Hemingways sem var mjög skemmtilegt. Hann ánafnaði kúbverska ríkinu húsinu eftir dauða sinn og er það nú nákvæmlega eins og þegar hann gekk út úr því í síðasta sinn. Safninu og báti hans Pilar er mjög vel við haldið. Þá mæli ég sérstaklega með því að fólk skoði tóbaksframleiðsluna og náttúruna í Piner del Río-héraðinu og fari í Havana-klúbbinn í sólbað og í sundlaugina og tækjasalinn en þar er einnig lítil strönd svo fátt eitt sé nefnt.

Einhver veitingastaður sem þú mælir með?

Maturinn á Kúbu er ágætur en aðaláherslan er lögð á kjúklinga, svínakjöt, humar, baunir og hrísgrjón. Ég mæli með því að fólk leggi leið sína á National-hótelið sem er gamalgróið og virðulegt hótel í Havana og borði á veitingastaðnum þar. Þá fór ég á veitingastaðinn Ajibe en hann er mjög flottur og maturinn eftir því. Einnig mæli ég með því að fólk fari á veitingastaðinn La Casona de 17, á sautjándu götu.