Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra farfugla fyrir framan nýbygginguna.
Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra farfugla fyrir framan nýbygginguna.
BREYTINGAR standa yfir á Farfuglaheimilinu í Laugardal en verið er að bæta við tveimur nýjum álmum eða samtals 1100 fermetra húsnæði.

BREYTINGAR standa yfir á Farfuglaheimilinu í Laugardal en verið er að bæta við tveimur nýjum álmum eða samtals 1100 fermetra húsnæði. "Farfuglaheimilið hefur verið starfrækt í Laugardalnum í fimmtán ár og má segja að það hafi verið orðið tímabært að að bæta húsnæðið sem og byggja við. Þá gerði vaxandi ásókn í vetrargistinu hjá okkur útslagið," segir Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra farfugla.

Í nýju byggingunni verða 28 herbergi, allt tveggja og fjögurra manna, eða pláss fyrir samtals hundrað gesti. Með gömlu byggingunni verður því pláss fyrir um 180 gesti. "Í nýju álmunum eru snyrtingar á öllum herbergjum þannig að þetta verður vel útbúið farfuglaheimili. Auk góðrar gistiaðstöðu verða þrjú gestaeldhús, eitt stórt fyrir hópa og tvö lítil fyrir einstaklinga. Þá er búið að stækka morgunverðarsalinn en hann tekur nú 110 gesti. Hluta af honum er unnt að nota sem fundarherbergi fyrir tæplega 40 manns."

Nettengdar tölvur, þvottavélar og þurrkarar

Gestir farfuglaheimilisins geta fengið afnot af þvottavélum og þurrkurum og þá verða settar uppnettengdar tölvur. Væg greiðsla verður tekin fyrir að fara á Netið.

"Við ætlum að taka fyrstu álmuna í notkun 1. maí en allt húsið verður tekið í notkun 1. júní. Eldri byggingin er opin núna þrátt fyrir miklar framkvæmdir en gestir hafa sýnt okkur velvilja, biðlund og tillitsemi."

Aðspurður segir Markús að engin tilboð verði í kjölfar nýju opnunarinnar enda segir hann farfuglaheimilin ávallt bjóða upp á hagstæða gistingu. "Gott dæmi um hagstæð kjör er að í sumar getur fólk komið til okkar og verið í 2 manna herbergi, samtals 16 fermetrum, á 5.000 á nóttina eða 2.500 á mann."

Bókunarstaðan er mjög góð fyrir sumarið að sögn Markúsar og útlit fyrir að fullt verði í sumar eins og undanfarin ár. "Landsmenn hafa hingað til ekki nýtt sér aðstöðuna hjá okkur á sumrin en það er þó að verða sífellt algengara að þeir geri það á veturna. Við vonumst til þess að með breytingunum getum við höfðað enn meira til þeirra. Með nýju byggingunni fáum við lokaðan suðurgarð og þar verður trépallur, sett upp húsgögn og grillaðstaða sem gestir jafnt á farfuglaheimilinu sem og tjaldsvæðinu geta nýtt sér."