[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÁIR HAFA átt eins ævintýralega ævi og bandaríski tónlistarmaðurinn Merle Haggard. Óhætt er að telja hann með áhrifamestu sveitasöngvurum vestan hafs en þó var hann í sífelldu stríði við tónlistariðnaðinn, yfirvöld og sjálfan sig. Vel á annað hundrað af plötum hefur komi út undir nafni Haggards, safnskífur, tónleika- og hljóðversplötur, og seint á síðasta ári kom út platan If Only I Could Fly sem óhætt er að telja með hans helstu verkum.

Merle Haggard er fæddur undir lok kreppunni vestan hafs, 6. apríl 1937, í Kaliforníu. Faðir hans var tónlistarmaður en móðirin heittrúuð og hafði lítið dálæti á annarri tónlist en kirkjutónlist. Faðir Haggards lést er hann var aðeins níu ára og er pilturinn gerðist baldinn setti móðir hans hann í skammtímavistun á upptökuheimili. Þar tókst mönnum ekki að berja úr Haggard óþægðina en sló nokkuð á hamaganginn í snáða að hann uppgötvaði sveitatónlist og heillaðist.

Tólf ára gamall var Haggard farinn að kenna sjálfum sér á gítar og tók gítarinn með sér þegar hann strauk að heiman með félaga sínum fjórtán ára gamall. Þegar þeir félaga sneru aftur til Kaliforníu nokkrum mánuðum síðar lentu þeir í klónum á lögreglunni fyrir misskilning en þegar greitt hafði verið úr þeim misskilningi var Haggard enn settur á unglingaheimili. Hann var ekki lengi að láta sig hverfa og vann um tíma ýmis láglaunastörf á milli þess sem hann hafði í sig og á með þjófnaði. Um líkt leyti byrjaði hann að troða upp opinberlega en fluttist síðan aftur heim til móður sinnar og yfirvöld voru ekki sein á sér að hneppa hann í varðhald að nýju og senda síðan enn á unglingaheimili. Þegar hann strauk þaðan var hann sendur á lokað upptökuheimili og var þar með annan fótinn næstu árin.

Þegar Haggard losnaði loks af upptökuheimilum ákvað hann að sinna tónlistinni af meiri krafti og næstu ár vann hann dagvinnu en spilaði á kvöldin. Nítján ára gamall giftist hann en átti erfitt með að láta enda ná saman og sneri sér að glæpum aftur. Hann var handtekinn eftir ránstilraun í árslok 1957 og eftir að hafa strokið úr varðhaldi var hann dæmdur til fimmtán ára fangelsisvistar í San Quentin-fangelsinu alræmda.

Ekki rakst Haggart betur innan fangelsismúranna en utan og var í sífelldum krytum við fangaverði. Steininn tók úr þegar hann byrjaði að brugga í klefa sínum og reka þaðan fjárhættuspil. Ekki fór fram hjá vörðunum að eitthvað var á seyði þegar Haggard reikaði dauðadrukkinn um fangelsið og hann var settur í einangrun. Þá var það loks sem hann segir hafa fengið næði til að hugsa og ákvað að byrja nýtt líf, hóf nám og varð fyrirmyndarfangi. Ekki leið á löngu að refsingin var stytt og hluti hennar skilorðsbundinn svo Haggard gat farið að koma undir sig fótunum að nýju.

Næstu ár lék Haggard tónlist á kvöldin og vann á daginn eins og forðum en smám saman vann hann sér það orð að hann komst á samning. Fyrsta smáskífan sem hann sendi frá sér var með lagi eftir annan en náði talsverðri hylli. 1966 ná svo segja að Merle Haggard hafi loks verið búinn að sanna sig sem tónlistarmaður því það ár kom hann þremur lögum inn á topp tíu vestan hafs. Um það leyti var hann farinn að semja meira sjálfur með góðum árangri og næstu ár kom hann 37 lögum í röð inn á topp tíu og þar af 23 í efsta sætið. Það var ekki síst til að ýta undir vinsældir Haggards að hann söng um erfiða ævi sína sem plötukaupendur kunnu vel að meta. Hafði og sitt að segja að hann var málsvari verkamannsins í bandarískri tónlist og veittist meðal annars að hippamenningunni í laginu fræga Okie from Muskogee.

Frægðarsól Haggards tók að renna undir lok áttunda áratugarins en í upphafi þess níunda kom hann hverju laginu af öðru á vinsældalista og sýndi að hann væri ekki dauður úr öllum æðum. Það gat þó ekki haldið áfram endalaust og 1987 kom hann lagi á vinsældalista vestan hafs í síðasta sinn.

Tíundi áratugurinn reyndist Haggard erfiður en undir lok hans vakti mikla athygli er Haggard gerði samning við Anti, undirmerki pönkútgáfunnar Epitaph. Fyrsta platan á þeim samningi er áðurnefnd If I Could Only Fly sem fengið hefur framúrskarandi dóma, ekki síst fyrir það hve Haggard hefur plötuna einfalda og blátt áfram.

eftir Árna Matthíasson