Ari Þór Vilhjálmsson
Ari Þór Vilhjálmsson
ARI Þór Vilhjálmsson fiðluleikari heldur einleikaraprófstónleika frá Tónlistarskólanum í Reykjavík í Salnum í Kópavogi í dag, sunnudag, kl. 14. Með honum á píanó leikur Víkingur Heiðar Ólafsson.

ARI Þór Vilhjálmsson fiðluleikari heldur einleikaraprófstónleika frá Tónlistarskólanum í Reykjavík í Salnum í Kópavogi í dag, sunnudag, kl. 14. Með honum á píanó leikur Víkingur Heiðar Ólafsson. Tónleikarnir eru seinni hluti einleikaraprófs Ara frá skólanum.

"Ég hlakka mjög mikið til," segir Ari og kveðst tilbúinn í slaginn.

Á efnisskránni eru Rómansa í F-dúr op. 50 eftir Ludwig van Beethoven, Einleikssónata nr. 3 í C-dúr S. 1005 eftir Johann Sebastian Bach, Sónata fyrir fiðlu og píanó eftir Jón Nordal og Sónata í D-dúr op. 94a fyrir fiðlu og píanó eftir Sergei Prókofieff.

Hljómar miklu betur á fiðlu

Rómansan eftir Beethoven sem Ari hefur leikinn á er að hans sögn "fallegt og rólegt verk". Sónatan eftir Bach er úr safni sex sónatna sem Bach samdi í kringum 1720 þegar hann var tónlistarstjóri við hirðina í Köthen. "Þá gat hann samið veraldlega tónlist, með öðru, og á þeim tíma þótti það mikil nýjungagirni að semja fyrir einleikshljóðfæri - annars var alltaf undirleikur með. Þessar sónötur eru mjög vel skrifaðar fyrir fiðluna og hann notar möguleika hljóðfærisins mjög vel. Fyrsti kaflinn í þessari sónötu er hægur inngangskafli, sá næsti er fúga, þriðji kaflinn er eins og tríósónata þess tíma, ein laglína og tveir undirhljómar, og sá fjórði er hraður virtúósakafli," segir Ari. "Við nemendur Guðnýjar Guðmundsdóttur erum alltaf að spila Bach og mér þykir sérstaklega vænt um þessa sónötu," bætir hann við.

"Svo spila ég sónötu eftir Jón Nordal. Ég held að hann hafi verið um 24 ára aldurinn þegar hann samdi hana," segir Ari og viðurkennir að honum hafi ekki þótt sónatan sérlega árennileg í upphafi en svo hafi hún unnið á og nú þyki honum hún mjög skemmtileg. "Mér þykir orðið mjög vænt um hana núna," segir hann.

Sónatan eftir Prókofieff sem er síðust á efnisskrá tónleikanna var að sögn Ara upphaflega samin fyrir flautu og píanó. "En David Oistrakh, einn frægasti fiðluleikari 20. aldar, fékk Prókofieff til að umskrifa hana fyrir fiðlu. Hún hljómar náttúrulega miklu betur á fiðlu," segir Ari.

Stefnan tekin á Bandaríkin

Eins og áður sagði hefur Ari fengið til liðs við sig félaga sinn úr Tónlistarskólanum, Víking Heiðar Ólafsson, sem nýverið hélt einleikaraprófstónleika sína í Salnum. "Það er auðvitað frábært að spila með honum," segir Ari.

Aðspurður um framtíðaráform kveðst Ari taka stefnuna á frekara nám í Bandaríkjunum. Hann hefur sótt um skólavist á nokkrum stöðum og er að bíða eftir svörum. Hann hefur mikinn hug á að komast til kennara í Chicago, hjónanna Almitu og Roland Vamos, sem eru mörgum íslenskum fiðluleikurum að góðu kunn. "Ef ég kemst ekki inn í skóla í haust myndi ég bara vera í einkatímum hjá þeim fyrsta veturinn," segir hann.

Sala aðgöngumiða í Salnum hefst klukkustund fyrir tónleikana eða kl. 13.00.