SAMEIGINLEGIR forfeður manna og apa þurftu að geta greint á milli rauðs og græns litar til að komast af og þeim eiga menn að þakka að þeir sjá heiminn í öllum sínum regnbogans litum.

SAMEIGINLEGIR forfeður manna og apa þurftu að geta greint á milli rauðs og græns litar til að komast af og þeim eiga menn að þakka að þeir sjá heiminn í öllum sínum regnbogans litum.

Þetta kemur fram í rannsókn vísindamanna við Hong Kong háskóla sem birt er í vísindaritinu Nature.

Vísindamennirnir skráðu hjá sér matarvenjur mannapa í Kibale frumskóginum í Úganda til að sjá hvernig litaskyn þeirra hefur áhrif á val þeirra á ávöxtum og laufum til átu. Prímatar, ættbálkur sá er menn og apar tilheyra, eru einu dýrin sem sjá liti.

Nathaniel Dominy og Peter Lucas sem stóðu að rannsókninni, komust að því að hæfileikinn til að geta greint gult frá bláu reyndist nægilegur þegar kom að því að velja ávexti til átu. Hins vegar er nauðsynlegt fyrir apana að geta greint á milli rauðs og græns litar til að geta fundið næringarríkustu laufin. Þau hafa yfirleitt rauða slikju þannig að þau skera sig úr grænum skóginum.

"Allir prímatar, jafnvel þeir sem borða mest af ávöxtum, verða að reiða sig á laufin þann tíma árs þegar ávextir eru ekki fáanlegir," sagði Dominy í netviðtali við fréttastofu Reuters.

Hann bætti við að mun fleiri menn en apar þjáist af litblindu og sagði skýringu þess geta verið þá að litaskyn sé ekki lengur lífsnauðsynlegur eiginleiki.

London. Reuters.