FJÁRMÁLARÁÐHERRAR Norðurlanda telja stöðu efnahagsmála á Norðurlöndum áfram trausta þrátt fyrir að útlit sé fyrir hægari hagvöxt í helstu iðnríkjum á næstunni. Þetta kom fram á fundi ráðherranna í Helsinki á föstudag.
FJÁRMÁLARÁÐHERRAR Norðurlanda telja stöðu efnahagsmála á Norðurlöndum áfram trausta þrátt fyrir að útlit sé fyrir hægari hagvöxt í helstu iðnríkjum á næstunni. Þetta kom fram á fundi ráðherranna í Helsinki á föstudag. Ráðherrarnir töldu nauðsynlegt að hafa hemil á kostnaðarþróuninni og að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum.

Búist er við að heldur dragi úr hagvexti á Norðurlöndunum á næstunni, en á þessu ári er reiknað með að hagvöxtur verði að meðaltali tæp 3% á Norðurlöndunum og 2,5% á næsta ári. Á öllum Norðurlöndunum er gert ráð fyrir verulegum afgangi á fjárlögum á þessu ári og því næsta, sem gefur færi á að lækka skuldir hins opinbera enn frekar á næstu árum.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, benti á að töluverðar breytingar hefðu orðið á sviði efnahagsmála á Íslandi að undanförnu. Þar bæri hæst breyttar áherslur í stjórn peningamála sem ótvírætt myndu styrkja stöðu efnahagsmála þegar fram í sækir. Þá hefði ríkisstjórnin ákveðið sölu á Landssímanum, Landsbanka og Búnaðarbanka og að horfur væru á því að hafist yrði handa um frekari uppbyggingu álvera hér á landi.

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um ýmis skattamál og staðfestu samkomulag milli Norðurlandanna um gagnkvæm upplýsingaskipti og aukið samráð á því sviði. Ennfremur var á fundinum rætt um ýmis málefni á vettvangi Evrópusambandsins, meðal annars með tilliti til fyrirhugaðs leiðtogafundar í Gautaborg síðar í þessum mánuði.

Afmælisfundur Norræna fjárfestingarbankans

Samhliða fundi fjármálaráðherra Norðurlanda var haldinn ársfundur Norræna fjárfestingarbankans sem jafnframt var afmælisfundur bankans í tilefni þess að aldarfjórðungur er nú liðinn frá stofnun hans. Í ávarpi sínu gerði Geir H. Haarde að umtalsefni þær miklu breytingar sem orðið hefðu á alþjóðafjármagnsmarkaði frá því að bankinn var stofnaður. Það hefði kallað á stöðuga endurskoðun á starfsemi bankans sem væri í senn til marks um styrk norræns samstarfs og þann sveigjanleika sem væri nauðsynlegur við ríkjandi aðstæður. Nú væri til dæmis mun meiri áhersla lögð á starfsemi bankans í Eystrasaltsríkjunum og öðrum ríkjum Austur- og Mið-Evrópu en áður og framlag Norðurlandanna til uppbyggingar efnahagslífs þessara ríkja væri bæði mikilvægt og mikils metið, þrátt fyrir að Norðurlöndin teldust ekki til stórvelda á þessum markaði.