Göturnar í gamla bænum eru of þröngar fyrir strætisvagna svo sporvagnar klífa hæðirnar hægt og bítandi.
Göturnar í gamla bænum eru of þröngar fyrir strætisvagna svo sporvagnar klífa hæðirnar hægt og bítandi.
Lissabon stendur á sjö hæðum við ána Rio Tejo. Laufey Guðnadóttir segir að gömul lágreist steinhús í björtum og sterkum suðrænum litum, pálmatré og víðáttan sem fylgir Rio Tejo ljái henni suðrænt yfirbragð.
Þó að Lissabon sé hafnarborg má auðveldlega komast á ágætis strendur í hálftíma lestarfjarlægð frá borginni. Einnig er auðvelt að komast til höfuðborgarinnar frá vinsælustu ferðamannastöðum Portúgals.

Þótt borgin sé tiltölulega lítil og auðvelt að komast leiðar sinnar fótgangandi er ekki laust við að jafnvel vanir göngumenn fái harðsperrur í kálfana eftir fyrsta daginn af því að þramma ýmist upp eða niður brattar og þröngar götur Lissabon. Hið opinbera samgöngukerfi er þó ágætt og þó svo að göturnar í gamla bænum séu of þröngar fyrir strætisvagna klífa gamlir sporvagnar hæðirnar hægt og bítandi. Hægt er að taka sporvagn frá Baixa, gamla miðkjarnanum, norð-austur inn í Alfama-hverfið, elsta hverfi Lissabon, sem hvílir á þremur hæðum af sjö, að Castelo de Sao Jorge sem trónir yfir borginni, en þaðan er stórkostlegt útsýni.

Það er auðvelt að villast í hverfunum sem liggja í hæðunum umhverfis miðkjarnann og því nauðsynlegt að vera með gott kort af borginni.

Þjóðlegir veitingastaðir

Lissabon hefur eflaust fengið góða andlitslyftingu fyrir heimssýninguna Expó 1998 og henni að þakka að peningasjálfsalar eru á hverju götuhorni. Ekki þarf þó að fá sér langan göngutúr út fyrir miðkjarnann, Baixa, til að sjá að enn ríkir mikil fátækt í Lissabon. Granítlagðar gangstéttir, þjóðleg veitingahús og maturinn minna á menningu Miðjarðarhafslanda. Þó svo að veitingahúsin standi í röðum hvert við annað meðfram aðalgötunum í Baixa bera þau öll hefðbundið portúgalskt yfirbragð. Þau samanstanda af einu stóru, vel upplýstu herbergi, veggirnir eru flísalagðir í ljósum litum og sterk lykt liggur í loftinu en hráefnið, einkum fiskurinn, er til sýnis í glugganum sem snýr að götunni áður en gengið er inn. Sjávarréttirnir eru gómsætir og nauðsynlegt að smakka saltfisk matreiddan á portúgalska vísu. "Bacalhau" stendur alls staðar til boða en líkt og Spánverjar eru Portúgalir frægir fyrir fiskrétti og luma á uppskrift fyrir hvern dag ársins.

Vestan við Baixa liggja hverfin Chiado og Bairro Alto þar sem hægt er að finna margar skemmtilegar verslanir á daginn og svo fjölbreytt næturlíf. Nauðsynlegt er að skoða Bairro Alto að kvöldlagi þegar hverfið iðar af mannlífi, en þar er að finna nokkra mjög góða veitingastaði sem greina sig frá hinum hefðbundnu sem og bari og skemmtistaði. Lítið fer fyrir hefðbundnum evrópskum kaffihúsum í Lissabon með borðum úti enda kjósa heimamenn heldur að hlífa sér fyrir hitanum og sólinni.

Mikið er af kaffihúsum í Chiado sem bjóða upp á ljúffengt kaffi eins og við er að búast og ómótstæðileg portúgölsk sætindi á borð við "Pastéis de nata", litlar kökur með sætri eggjafyllingu sem bornar eru fram heitar.