Frá sýningu leirlistarmannanna Helgu Unnarsdóttur og Ingibjargar Klemenzdóttur í Listamiðstöðinni, Straumi í Hafnarfirði.
Frá sýningu leirlistarmannanna Helgu Unnarsdóttur og Ingibjargar Klemenzdóttur í Listamiðstöðinni, Straumi í Hafnarfirði.
Til 4. júní. Opið daglega frá kl. 14-18.
LEIRLIST er ekki til sýnis á hverjum degi, en nú er í Straumi, Hafnarfirði samsýning tveggja leirlistarmanna, þeirra Ingibjargar Klemenzdóttur og Helgu Unnarsdóttur. Það er ekki langt síðan þær luku námi, því Ingibjörg útskrifaðist í fyrra frá Listaháskólanum, en Helga árinu fyrr úr sömu deild. Báðar eiga það sameiginlegt að fást við náttúruminni í verkum sínum, en einnig einkennir list þeirra áherslan á yfirborð verkanna, og það hvernig brennslan leikur leirinn.

Þannig verður til náttúrulýsing í tvennum skilningi; verkin standa fyrir ákveðið ferli og eru sprottin af ferlinu um leið. Áhrif hugmyndalistarinnar má því skynja býsna vel í hugmyndum og nálgun beggja kvenna. Verk þeirra ganga prýðisvel upp í hinu ágæta sýningarrými Straums og virka þau sannfærandi í heild sinni.

Nálgun Ingibjargar tengist mjög jörðinni og innri kröftum hennar. Hún hefur lengi verið heilluð af krafti funans og því hvernig brennsla munanna skilar sér í verkunum sem vottur um umbrotakraft náttúrunnar. Að því leytinu er hún oft á svipuðu róli og Jóhann Eyfells, sem notar jörðina sem mót fyrir höggmyndir sínar. Fegurðin í veggverkum Ingibjargar er því engan veginn laus við ógnir þær sem minna okkur á eldsumbrot og ólguna í iðrum jarðar. Litbrigðin í syrpum hennar eru litbrigði jarðarinnar, bergsins og jarðvegsins sem er stöðugt undirorpinn breytingum vegna árása jarðmótunaraflanna.

Verk Helgu vísa hins vegar til hringrásarinnar, árstíðanna, hinna fornu mánaða og litbrigðanna sem tengjast þessu ferli. Verk hennar eru því lausbeislaðri og laustengdari við jörðina. Reynar lýsa verk hennar fremur hreyfingu og hraða en kyrrstæðum fyrirbærum. Eins nýtir hún sér efnivið úr heimi textíllistarinnar, hrosshár eða hör, sem gefa verkum hennar lífrænan svip og svífandi léttleik, líkt og flugeldar skjótist á loft eða kólfar taki á rás. Líkt og Ingibjörg sýnir Helga margvíslega tækni þegar kemur að áferð og brennslu. Verk hennar njóta sín eins vel á gólfi, á vegg, eða jafnvel hangandi úr loftinu.

Það er vert að ítreka hve stutt er til loka þessarar ágætu sýningar þeirra Helgu og Ingibjargar, en henni lýkur á annan í hvítasunnu. Sýningarsalurinn í Straumi er þó opinn alla hátíðina.

Halldór Björn Runólfsson