[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 1998 gaf Jazzís út plötuna Prím með tónlist eftir Jóel Pálsson. Djassgeggjarar hafa hlustað á hana reglulega og hún er í miklu uppáhaldi í plötu- og diskasafni þeirra. Nýlega kom út ný plata með tónlist Jóels Pálssonar, Klif, sem vakið hefur athygli og fengið góða dóma gagnrýnenda. Ólafur Ormsson ræddi við Jóel um nýju plötuna og það sem hann er nú að fást við.

JÓEL Pálsson flutti í október á síðastliðnu ári á Tómasarhagann í Reykjavík ásamt konu sinni Bergþóru Guðnadóttur og þriggja ára syni þeirra Breka. Jóel er kominn á fornar slóðir þar sem hann er fæddur og uppalinn og sleit barnsskónum á Grímsstaðarholtinu og nágrenni. Jóel hitti ég í byrjun maímánaðar á heimili hans á Tómasarhaganum. Fjölskyldan býr þar í fjögurra herbergja íbúð sem er björt og skemmtileg. Úr stofuglugga sér út á hafið og yfir á Álftanesið.

Jóel hefur sitt lifibrauð af tónlistinni og hefur undanfarin ár verið í hópi okkar athyglisverðustu tónlistarmanna. Jóel er frjór og skapandi listamaður. Hann er fæddur í Reykjavík árið 1972 og á því ekki langan feril að baki líkt og ýmsir tónlistarmenn sem ég hef átt viðtöl við á undanförnum árum fyrir Morgunblaðið. Þó tónlistarferilinn sé ekki langur er hann þeim mun athyglisverðari. Jóel hefur leikið á yfir 50 hljómplötum og komið víða fram, s.s. í Bandaríkjunum, Kanada, Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi, Englandi, Noregi, Danmörku og Grænlandi. Árið 1998 gaf Jazzís út plötuna Prím með tónlist eftir Jóel og var sú plata valin til útgáfu hjá hinu heimsþekkta Naxos-útgáfufyrirtæki og gefin út víða um heim.

Nýja platan, Klif, sem kom út fyrir örfáum vikum hjá nýju útgáfuforlagi, Eddu, hefur fengið mjög góða dóma gagnrýnenda. Vernharður Linnet segir t.d. í umsögn um plötuna í Morgunblaðinu 10. maí. ,,Á engum íslenskum djassdiski til þessa hefur tekist betur að sameina framsækna hugsun og djasshefðina. Tónsmíðarnar eru innihaldsríkar, spuninn hugmyndaríkur og hrynsveitin jarðbundin. Jóel hefur agað tón sinn enn meira en fyrr og vald hans yfir tenórsaxófóninum er nær algert. Hilmar er hugmyndaríkur í spuna sínum jafnt sem skreytingum og Skúli gæðir hvern takt sem hann leikur nýju lífi. Loks skal það nefnt að Matthías hef ég aldrei heyrt betri, hvort sem hann slær taktinn eða litar tónlistina með áslætti sínum."

Jóel Pálsson rifjaði upp fyrstu kynni sín af tónlist í foreldrahúsum.

,,Ég ólst upp við að heyra klassíska músík og djasstónlist og hef iðkað tónlist frá því ég var barn að aldri. Faðir minn, Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, hafði mikinn áhuga á tónlist og spilaði á selló og kontrabassa, lék með djassböndum hér fyrr á árum og erlendum djassleikurum, t.d. með hinum kunna bandaríska trompetleikara Art Farmer sem kom til Íslands 1966. Pabbi hlustaði einnig á kammerdjass, The Modern Jazz Quartet, og ég ólst upp við að hlusta á djass og klassísk músík á líka töluverð ítök í mér. Það er engin spurning að ég varð fyrir tónlistaráhrifum á æskuheimili mínu og er þakklátur foreldrum mínum fyrir að hafa haldið mér við efnið."

Varstu snemma kominn í tónlistarskóla?

,,Ég byrjaði mjög ungur, sex eða sjö ára í forskóla í Tónmenntaskólanum í einhverju föndri og hóf ekki strax að spila á hljóðfæri. Níu ára byrjaði ég að læra þar á klarinett og var í klarinettnámi í nokkur ár og lauk þaðan námi og útskrifaðist."

Skiptir þú fljótt yfir á saxófón þegar þú varst kominn í Tónlistarskóla FÍH?

,,Já. Ég skipti yfir á saxófón og lærði fyrsta árið á altósaxófón en fór síðan yfir á tenór og vildi læra að spila djass. Sæbjörn Jónsson var búinn að stofna stórsveit í skólanum sem síðar varð að Stórsveit Reykjavíkur. Þá ákvað ég að spila á saxófón og prófaði mig áfram á barintónsaxófón en skipti fljótt upp úr því og var eitt ár að spila á altósaxófón en stefndi alltaf á tenórinn."

Varstu þá farinn að hlusta á djasstónlist og þá á saxófónleikara?

,,Já, þá var ég byrjaður að hlusta á djassplötur. Pabbi gaf mér tvær plötur sem ég hlustaði mikið á og eru enn í uppáhaldi hjá mér, önnur þeirra er Coltrane-plata, The best of John Coltrane, og hin er Sonnie Rollings-plata og báðir voru þeir miklir áhrifavaldar. Ég hlustaði einnig á plötur með Paul Desmond. Á unglingsárum fór ég að hlusta eftir saxófónleikurum og djassaðri poppmúsík og kom oft í Safnarabúðina á Klapparstígnum og þar fann ég Mezzoforteplöturnar og keypti þær allar. Þá eignaðist ég plötu Tómasar R. Einarssonar, Hinsegin blús, og hlustaði mikið á hana.

Klarinettið er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef undanfarin ár verið að rifja upp kynni mín af klarinettinu og spila töluvert á það og er t.d núna að spila á það hljóðfæri í Þjóðleikhúsinu í sýningunni Syngjandi í rigningunni. Á þessari nýju plötu, Klif, er ég t.d. að spila á kontrabassaklarinett sem er tiltölulega sjaldgæft hljóðfæri, sem er svona framlenging á klarinettupælingum mínum og það er hljóðfæri sem ég get hugsað mér að nota meira."

Hverjir voru þínir fyrstu tónlistarkennarar?

,,Fyrsti kennari minn á klarinett var Þórir Þórisson. Þá kenndu mér einnig á klarinett Kjartan Óskarsson og Jóhann Ingólfsson í Tónmenntaskólanum. Í Tónlistarskóla FÍH. Eftir að ég hafði skipt yfir á saxófón lærði ég eitt ár hjá konu sem heitir Vigdís Klara og býr nú á Dalvík. Þá lærði ég hjá Stefáni Stefánssyni um tíma og var síðustu tvö árin hjá Sigurði Flosasyni. Sigurður tók mig virkilega föstum tökum og setti mér reyndar úrslitakosti. Annaðhvort færi ég alla leið í náminu eða hreinlega sleppti því. Hann gerði mér grein fyrir alvöru málsins. Að hætta jafnvel eftir fyrsta tímann eða berjast til þrautar. Ég ákvað að berjast til þrautar og lauk námi frá Tónlistarskóla FÍH."

Hinn bráðefnilegi ungi tónlistarmaður vakti snemma athygli. Hann fékk styrk til frekari náms í Bandaríkjunum. Áður hafði hann spilað í skólahljómsveitum og á djassuppákomum hér heima.

Hvenær byrjar þú að spila í hljómsveit?

,,Það var í skólahljómsveit á árshátíð í níunda bekk í Hagaskóla. Þá var ég fjórtán ára. Með mér í þeirri hljómsveit voru t.d. Einar Scheving trommuleikari og Kristján Eldjárn gítarleikari. Þá vorum við með hljómsveit í Menntaskólanum í Hamrahlíð og þar voru með okkur t.d. Gunnlaugur Guðmundsson, sem nú er í Hollandi, Karl Olgeirsson, Einar Scheving og fleiri góðir músíkantar. Við settum upp söngleikinn Rocky Horror og það var svona með því fyrsta í þessari vinnu."

Jóel lauk stúdentsprófi af náttúrufræði- og tónlistarbraut frá MH vorið 1992. Hvað tók svo við að loknu stúdentsprófi?

,,Samhliða námi í MH kláraði ég námið í tónlistarskóla FÍH. Ég stefndi nú alltaf á langskólanám. Ég fékk styrk þarna um sumarið og hélt til Bandaríkjanna og innritaðist á Berkeley-tónlistarskólann í Boston og var þar í tvö ár og lauk BM-prófi haustið 1994. Ég spilaði með ýmsum skólahljómsveitum og fór t.d. með Buddy Riche-bandinu til Pennsilvaníu og til Nashville með úrvalsbandi skólans sem Bill Pierce stjórnaði."

Voru þarna einhverjir Íslendingar áður?

,,Já, Hilmar Jensson og Skúli Sverrisson og nokkrir fleiri áður en ég kom í skólann. Þegar ég var í námi voru þarna einnig Veigar Margeirsson trompetleikari og Atli Örvarsson o.fl."

Að loknu námi tók alvaran við. Jóel byrjaði að kenna við tónlistarskóla á Íslandi.

,,Ég byrjaði að kenna við Tónlistarskólann á Akranesi tvisvar í viku einn vetur. Þá var ég einnig að kenna við Tónlistarskóla FÍH og fleiri tónlistarskóla. Ég fór að spila með hinum ýmsum hljómsveitum t.d Milljónamæringunum og er enn að spila með þeim við ýmis tækifæri. Ég setti saman ýmsar hljómsveitir sem spiluðu t.d. á djasskvöldum og spilaði með hinum og þessum tónlistarmönnum og þannig er það enn í dag. Þá hef ég verið að spila í hljóðverum með tónlistarmönnum við upptökur á plötum og diskum. Ég hef einnig verið að útsetja töluvert fyrir aðra tónlistarmenn, það er mjög góð reynsla og góður skóli og það er nauðsynlegt að fá sem víðtækasta reynslu úr sem flestum hlutum."

Hvenær byrjaðir þú að fást við tónsmíðar?

,,Ég byrjaði að semja tónlist meðan ég var í tónlistarskóla FÍH. Síðan hafa tónsmíðarnar þróast með spilamennskunni og taka alltaf stærri og stærri sess í því sem ég er að gera. Ég sem yfirleitt á píanóið og skrifa þá það sem ég vil að sé skrifað. Ég sem tónlist í skorpuvinnu og þarf að hafa gott næði og ég hef prýðisgóða aðstöðu í bílskúr hér við húsið. Þar loka ég mig af og vil vera í næði og svara hvorki í farsíma né annan síma. Ég sem auðvitað djassmúsík sem ég sé fram á að ég muni flytja sjálfur og þá einnig með öðrum."

Prím var fyrsta plata Jóel Pálssonar sem Jazzís gaf út árið 1998 og vakti mikla athygli.

Á plötunni Prím eru níu lög af tíu eftir þig. Var það allt ný tónlist eða hafðir þú verið að semja þá tónlist á löngu tímabili?

,,Megnið af þeirri tónlist samdi ég á nokkrum mánuðum áður en við fórum í upptökur í stúdíói. Eitthvað af þessari tónlist er aðeins eldri. Ég samdi t.d. eitthvað af tónlist þegar ég var úti í námi."

Ertu ekki ánægður með þær viðtökur sem fyrri plata þín fékk?

,,Jú, og hún gekk mjög vel."

Hver var aðdragandinn að útgáfu plötunnar erlendis?

,,Það var eiginlega algjör slembilukka, ég þurfti ekkert að hafa fyrir þessu. Það fóru þrjú eintök af plötunni, íslensku útgáfunni, úr landi og ein lenti hjá bandarískum gagnrýnanda. Ég fékk tölvupóst frá honum þar sem hann skýrði frá því að hann væri að skrifa um plötuna og hann vildi endilega senda hana til Naxos og ég samþykkti það. Það leið ekki langur tími þar til útgáfufyrirtækið hafði samband við mig og vildi fá upplýsingar um hvaða fyrirtæki ætti þessa plötu. Ég sagði þeim að plötuna ætti ekkert fyrirtæki, þetta væri allt á mínu eigin nafni. Þá vildu þeir gefa hana út og það tókust samningar um útgáfuréttinn og platan kom út um heim allan um áramótin 1999-2000. Ég veit ekki annað en að salan á plötunni gangi ágætlega. Hún fékk mjög góða dreifingu. Það er auðvitað ánægjulegast að geta kynnt íslenska djasstónlist erlendis."

Klif, nýja platan. Hvænær fórstu að huga að gerð hennar ?

,,Við tókum plötuna upp síðastliðið sumar. Ég samdi megnið af músíkinni veturinn á undan. Ég fékk þriggja mánaða starfslaun úr Starfslaunasjóði listamanna og hefðu þau ekki komið til hefði ég varla getað tekið frí frá kennslunni og einbeitt mér að tónsmíðum og ég er þakklátur fyrir það."

Hver er helsti munurinn á nýju plötunni og fyrri plötu?

,,Ég er svona aðeins að víkka út sjóndeildarhringinn hjá mér og kanna ný svæði. Fyrri platan er meira í akústískum eða klassískum djassstíl. Á nýju plötunni eru áberandi meiri áhrif frá raftónlist. Ég skrifaði tónlistina með þessa tónlistarmenn í huga sem eru með mér á plötunni. Ég lagði áherslu á heildstæð áhrif á plötunni. Ég hugsaði hana frá upphafi til enda, þetta er ekki bara einhver hrúga af lögum sem við spilum. Þegar við fórum að spila lögin og skoða þau betur, þá runnu sum lögin saman í eitt lag, annars staðar slitnaði lagið í sundur og varð að tveim lögum, þannig að skilin eru öll miklu óljósari, hvar eitt lagið byrjar og hvar hitt endar. Það var í gangi viss tilraunastarfsemi með formið, í staðinn fyrir þetta hefðbundna djassform. Við vorum fyrst og fremst að hugsað um áferð og heildaryfirbragðið á verkinu sem slíku. Ég er mjög ánægður með "sándið", eða hljóminn á plötunni og lagði ríka áherslu á að það yrði vandað til verka þar."

Er aukinn áhugi fyrir djassi meðal yngri kynslóðarinnar?

,,Já, og það má kannski merkja það af því að djassplötur fara inn á sölulista hér á Íslandi og það er nýtt. Það er greinilega vaxandi áhugi á djassmúsík og stílarnir eru aðeins að bráðna meira saman. Það eru "eliment" í rokkgeiranum sem eru að blandast inn í djassmúsíkina og öfugt. Það er kannski það skemmtilegasta við þetta að það er mikið af fólki sem er ekkert að spá í djassmúsík sem er að kveikja á þessu sem við erum að gera, það eru að koma nýir hlustendur."

Ertu ekki stöðugt að viða að þér nýju efni?

,,Eins og sagði áðan þá sem ég í skorpum. Ég hugsa meira um "konsept" og oft er ég að hugsa um nokkra hluti í einu. Ég verð síðan á endanum að velja eitthvað og þróa það lengra og setjast niður og skrifa músíkina. Ég gef mér góðan tíma til að viða að mér áhrifum og hlusta mikið í skorpum. Ég er t. d. núna að byrja að hlusta á meira og meira og síðan nær það einhverjum hápúnkti. Ég kynni mér margt og ýmsar stefnur t.d tilraunamúsík. Ég fer á málverkasýningar eða leikhússýningar og sýningar íslenska dansflokksins sem dæmi og les ýmislegt. Það er alltaf einhver törn í gangi af einhverju tagi, ég er þannig týpa."

Komið þið til með að fylgja plötunni Klif eftir og spila eitthvað á næstunni?

,,Já. Við gerum ráð fyrir að koma saman í sumar. Hilmar hefur verið erlendis í meira en mánuð á tónleikaferðalagi, en kemur heim núna síðar í maímánuði. Það er mjög erfitt að fá Skúla til landsins, hann hefur það mikið að gera og býr í New York og er gríðarlega eftirsóttur. Valdimar Kolbeinn bassaleikari verður eitthvað með okkur. Við ætlum reyna að spila í sumar og vonandi getum við verið með fullt band á djasshátíðinni í haust."